Gunnar Gaukur Magnússon og Snerpa ehf á Ísafirði hafa hafið forathugun á því að reisa gagnaver í Breiðadal. Þar er spennuvirki í eigu Landsnets, sem var nokkuð í fréttum fyrr í vetur vegna útsláttar. Ein af tillögunum í innviðaáætlun ríkisstjórnarinnar er að endurnýja spennuvirkið í Breiðadal og yfirbyggja það. Lagt er til að verkið hefjist 2023.
Gunnar Gaukur Magnússon framkvæmdastjóri Vesturverks ehf segir að staðsetningin sé góð upp á orku og ljósleiðara að gera og svo sé lóðin, sem er skipulögð sem iðnaðarlóð í hans eigu.
Gunnar leggur áherslu á að málið sé á byrjunarstigi. „Við erum ekki komir svo langt ennþá og erum við bara að stíga fyrstu skrefin og allt í lausu lofti með það en gæti orðið 5-20 MW jafnvel meira. Við munum líka skoða samstarf með starfandi gagnaverum hér á landi.“
Hann segir að samkeppnin sé mjög hörð í þessum geira. „Þetta er mjög erfiður markaður vegna lágs orkuverðs sem er í boði erlendis og því ekkert í hendi.“