Ríkisstjórnin hefur lagt fram innviðaáætlun sína. Í henni eru að sögn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra 540 aðgerðir sem vinna á að á næstu 10 árum, þar af eru 192 aðgerðir nýjar.
Á þættinum Sprengisandi á sunnudagsmorguninn sagði forsætisráðherra að alls væri 27 milljörðum króna bætt við fyrri áætlanir, þar af væri 15 milljarðar króna sem bætt væri við til þess að unnt væri að flýta framkvæmdum við ofanflóðavarnir svo að þeim lyki árið 2030 í stað 2050 sem annars stefnir í.
Aðspurð um hvaðan þessir peningar kæmu svaraði forsætisráðherra því til að gerð yrði grein fyrir því í væntanlegri fjármálaáætlun, en ítrekaði að ríkisstjórnin treysti sér til þess að bæta þessum 27 milljörðum króna við fyrri áætlanir.
Halldór Halldórsson fyrrervandi bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ er stjórnarmaður í Ofanflóðasjóði. Hann hefur gagnrýnt nýlega lagabreytingu sem færir tekjur af sérstökum skatti á fasteignir inn í ríkissjóð í stað þess að vera geymdar í Ofanflóðasjóði. Halldór segir að skatturinn hafi skilað um 23 milljörðum króna meira en ráðstafað hefur verið í ofanflóðavarnir. Mismunurinn væri eiginlega skuld ríkissjóð við Ofanflóðasjóð.
Það er að sögn Halldórs þegar til fé sem þarf í nauðsynlegar ofanflóðavarnir. Auk þess mun skatturinn skila um 27 milljörðum króna á næstu 10 árum. Hann sagðist ekki sjá að verið væri að setja neitt nýtt fé inn í ofanflóðaverkefnin. Þvert á móti væri hægt að leggja af skattinn og samt væri til fyrir verkefnunum og flýta þeim eins og nýja áætlunin kveður á um.
Allt tal um nýja peninga til ofanflóðavarna eru því sjónhverfingar. Það á áfram að skattleggja íbúðareigendur fyrir framkvæmdum sem þegar er búið að safna fyrir, í stað þess sem eðlilegt er að gert verði, að ríkisstjórnin skili ránsfengnum og hætti að tefja fyrir lífsnauðsynlegum vörnum íbúa margra byggðarlaga og veiti heimild fyrir því að framkvæmdum verði hraðað.
Það er satt að setja ömurlegt að fylgjast með auglýsingamennsku og sjónhverfingum stjórnmálamanna, sem vita upp á sig skömmina. Það skásta sem ríkisstjórnin getur gert úr því sem komið er að setja framkvæmdir á fulla ferð þegar í stað án frekari vafninga. Íbúarnir sem búa við óöryggi krefjast öryggis fyrr en seinna.
-k