Stórsókn í byggðamálum

Hlutskipti landsbyggðarinnar leitar á hugann í daglegu amstri en þar erum við einmitt að skapa verðmæti á hverjum einasta degi úr auðlindum af ýmsu tagi.  Náttúrulegar auðlindir í sjó og á landi eru íslensku þjóðinni dýrmætar. Þetta er sameiginleg eign sem hlúa þarf að í almannaþágu.  Við eigum að nýta tekjur af auðlindum til að styrkja miklu betur dreifðar byggðar, bæta þjónustu, háhraðanet og samgöngur.

Landbúnaður og matvælaöryggi

Við jafnaðarmenn viljum styrkja stöðu íslenskrar matvælaframleiðslu á forsendum almennra markaðslögmála, matvælaöryggis og markmiða um sjálfbæra nýtingu.  Við viljum styrkja stöðu bændastéttarinnar. Við eigum að gæta hagsmuna bæði bænda og neytenda með auknu frelsi og nýsköpun í landbúnaði, hætta að moka undir milliliði eins og gert hefur verið,  auka svigrúm nýrra greina.

Búum okkur undir breytingar

Vegna breytinga á loftslagi eru hvarvetna gjörbreyttar aðstæður í vændum. Samkvæmt spám er þörf fyrir 50–70% aukningu á matvælaframleiðslu á næstu 30 árum. Það hefur því sjaldan verið jafn mikilvægt og nú að horfa til aukinnar nýsköpunar á þessu sviði.  Sömuleiðis er mikilvægt fyrir matvælaöryggi á Íslandi að tryggja sem fjölbreyttasta matvælaframleiðslu. Við ættum því að bæta verulega í framlög til rannsókna og nýsköpunar á framleiðslu landbúnaðarafurða hér á landi til samræmis við þarfir á íslenskum neytendamarkaði.

Veikir innviðir

Lægðir síðustu vikna hafa afhjúpað hversu varnarlaus við raunverulega erum og hversu veikir margvíslegir innviðir eru.  Innviðir, hvort sem um er að ræða raforku, snjóflóðavarnir, menntakerfi, samgöngur eða heilbrigðisþjónustu, eiga að vera með þeim hætti að sem minnstu máli skipti hvar fólk kýs að búa.  Það á að vera forgangsverkefni stjórnvalda að jafna búsetuskilyrði og stuðla að velferð og öryggi fólks um allt land.  Við verðum að setja meiri kraft í þá uppbyggingu.

Litlu fyrirtækin

Lítil og meðalstór fyrirtæki úti á landi eru gríðarlega mikilvæg, m.a. fyrirtæki í ferðaþjónustu og öðrum greinum.  Við verðum að gera rekstrarskilyrði þeirra betri og t.d. lækka tryggingagjaldið.  Þetta eru fyrirtæki sem fólk býr til fyrst og fremst til að veita nærþjónustu og gjarnan til þess að skapa sér og sínu fólki afkomu.  Staðreyndin er sú að lítil og meðalstór fyrirtæki eru burðarás í atvinnulífinu.  Formaðurinn okkar, Logi Einarsson ásamt fleirum í Samfylkingunni hefur einmitt lagt fram þingmál sem lýtur að því að styðja enn betur við þessi fyrirtæki.

Margir kostir landsbyggðar

Leggja þarf enn meiri áherslu á sóknaráætlanir landshluta þar sem heimamenn forgangsraða fjárfestingu og uppbyggingu í heimabyggð. Auk þess þarf hið opinbera að bjóða störf án staðsetningar eins og núverandi ríkisstjórn hefur lofað í stjórnarsáttmála sínum.  Þörf er á að setja á fót stjórnsýslustarfsstöðvar í stærri sveitarfélögum þar sem fólk mismunandi stjórnsýslustofnana getur starfað.

Ungt fólk og landsbyggðin

Við þurfum að fara í stórsókn til eflingar fjölbreyttu atvinnulífi og öflugum innviðum sem gerir byggðirnar um allt land eftirsóknarverða staði fyrir ungt fólk.  Reynslan sýnir að ungt fjölskyldufólk horfir til búsetu á landsbyggðinni með jákvæðum hug. Til þess að það geti verið raunhæfur kostur þurfa að vera fyrir hendi almennar forsendur, bæði í atvinnulegu og í félags- og menningarlegu tilliti.  Öll fjölskyldan þarf að geta unað glöð við sitt.  Á þessu sviði bíða áskoranirnar og möguleikarnir eru óteljandi.

Guðjón S. Brjánsson

þingmaður Samfylkingar

NV kjördæmi

DEILA