Lögreglan á Vestfjörðum hvetur ökumenn til þess að nota ekki síma við akstur, án handfrjáls búnaðar. Notkun snjallsíma með því að halda á honum í annarri hendi, t.d. til að svara SMS skilaboðum eða líta á það nýjasta í samfélagsmiðlum er bannað skv. umferðarlögum.
Sekt við slíku broti nemur 40.000.- krónum og er þeim fjármunum illa varið. Sektir eru þó ekki það versta heldur sýna rannsóknir að sá ökumaður sem notar snjallsíma undir stýri margfaldar hættuna á því að vera valdur að slysi.
Þrír ökumenn voru kærðir í fyrradag fyrir að nota snjallsíma á meðan á akstri stóð.
Allir voru þeir stöðvaðir á Ísafirði.
Þessi ósiður virðist því miður enn vera til staðar hjá einstaka ökumönnum.