Nú er sláturtörn Arnarlax við Hringsdal að ljúka.
Sláturskipið Norwegian Gannet hefur lokið störfum og starfsfólk Arnarlax og verktakar komast í verðskuldaða pásu eftir ótrúlegan árangur við að sækja, vinna, pakka og flytja lax frá Bíldudal.
Brunnbátarnir Akva Prins og Viking Saga munu áfram sækja lax til vinnslu þannig nóg verður að gera á Bíldudal næstu vikurnar sem endranær.
Gert er ráð fyrir að um 3.800 tonn af laxi muni renna í gegnum vinnsluna á Bíldudal á fyrsta fjórðungi þessa árs og jafnframt er gert ráð fyrir hærri kostnaði á fjórðungnum vegna mikilla umsvifa.
Betri vöxtur á fiski í sjókvíum gerir það að verkum að áætlað framleiðslumagn Arnarlax árið 2020 fer úr 10.000 tonnum í 12.000 tonn.
Heildaruppskera Arnarlax árið 2019 var um 10.000 tonn og tekjur ársins um 63 milljónir evra eða um 9 milljarðar króna.