Knattspyrna og tölfræði

Bjarki Stefánsson

Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða er á sínum stað á morgun föstudag.

Þá er gestur í Vísindaporti vikunnar Bjarki Stefánsson og mun hann fjalla um tölfræði í knattspyrnu.

Einhverjir kunna að spyrja sig hvernig megi tengja tölfræði við knattspyrnu? Með aukinni tækni og nýjungum í öðrum íþróttum hafa knattspyrnulið leitað meira í tölfræði til að fá til sín góða leikmenn og ná þannig forskoti á önnur lið.

Erindið byggir Bjarki á lokaverkefni sínu í stjórnun íþróttafélaga (Sports Business and Management, MSc) frá Háskólanum í Liverpool, Bretlandi, en þar skoðaði hann hvaða tölfræðibreytur hafa áhrif á verð knattspyrnumanna í Evrópu.

Bjarki sem er 29 ára er nýfluttur vestur eftir að hafa klárað meistaranám sitt frá Háskólanum í Liverpool og starfar hann nú sem framkvæmdarstjóri Héraðssambands Vestfirðinga (HSV).
Hann hefur áður lokið BSc-gráðu í íþróttafræði frá Háskóla Íslands, en Bjarki hefur þar að auki áralanga reynslu af íþróttum, bæði sem leikmaður og þjálfari í hand- og fótbolta.

Vísindaportið er opið öllum og fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13.

DEILA