Öskudagur

Öskudagur er fyrsti dagur föstunnar en svo er tíminn fyrir páska nefndur í dagatali kirkjunnar.  Fastan er undirbúningstími fyrir upprisuhátíð kirkjunnar.  Langafasta á að minna okkur á að Jesús bjó sig undir sitt starf með því að fasta í óbyggðum Júdeu í fjörtíu daga.  En af hverju ber öskudagurinn þetta nafn?

Kirkjunnar menn horfðu fram til páskanna og upprisu Jesú þegar því er fagnað að Kristur hafi gefið okkur dauðlegum mönnum eilíft líf.  Þeim fannst því eðlilegt að hefja föstuna á því að minna sig á forgengileikann en askan er einmitt tákn hans.  Á katólskri tíð var það siður að hafa öskuker frammi í kirkjum.  Fólki dýfði þá fingrinum í öskuna og gerði krossmark á enni sitt.  Eða þá að presturinn dýfði fingri í öskuna og gerði krossmark á enni fólk þar sem það gekk til altaris með þessum orðum:  „Minnstu þess maður að þú ert mold og að moldu skaltu aftur verða!“  Þessi orð eru tilvísun í Fyrstu Mósebók, þar sem sagt er frá því að maðurinn hafi verið skapaður af leir jarðar og í sveita síns andlits skuli hann strita alla ævina uns hann hverfi aftur til moldarinnar.  Í jarðarförum er það til siðs að kasta þremur moldarrekum á kistuna og segja um leið:  „Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa!“

Öskudagur er því alvarlegur dagur, dagur iðrunar og íhugunar.  Og af því að ekki komust allir til kirkju þá var það einnig til siðs að fólk fékk með sér heim blessaða ösku í poka til að setja nú einnig krossmark á enni þeirra, sem heima sátu og fóru ekki til kirkju.

Til að gamalt og gott íslenskt orðtak sem hljóðar svo:  „Þótt náttúran sé lamin með lurk þá leitar hún heim um síðir!“  Enda þótt prestarnir hafi hugsað öskudaginn sem dag iðrunar til að temja holdið þá tókst Íslendingum einum þjóða að gera öskudaginn að amorsdegi.  Hér á landi varð nefnilega til sá siður að setja ösku í poka og hengja aftan á fólk.  Munu ungar stúlkur gjarnan hafa hengt poka aftan á pilt, sem þær vildu stíga í vænginn við.  Piltarnir áttu kannski ekki eins hægt um vik að ná í ösku og stúlkurnar, sem í eldhúsinu unnu, og því munu piltar stundum hafa látið smástein í sinn poka, sem þeir nældu á bakið á stúlkunni.  Höfðu menn og konur gaman af þessum sið.

Höfundur pistils er alinn upp við það að hengja öskupoka aftan á fólk.  Að vísu var amorsþátturinn þá horfinn út úr þessum sið.  En á öskudaginn fór ég gjarnan út á götu með öskudagspoka, sem mamma hafði saumað handa mér.  Að vísu var ekki alltaf auðvelt að hengja þessa poka aftan á fólk því í ungdæmi pistlahöfunar höfðu flestir landsmenn lagt af þann klæðaburð að vera í ullarfötum.  Það voru helst gamlar konur, sem voru í ullarkápum á þeim tíma, og aftan á þær hengdi ég ekki ófáa pokana.  En svo hvarf þessi gleði þegar verksmiðjur í útlandinu hættu að framleiða títuprjóna, sem hægt var að beygja í krappt horn.  Nútíma títuprjónar brotna strax og reynt er að beygja þá.  Og því lagðist þessi siður af.  Er það miður.

Öskudagur heldur áfram að heita öskudagur þó svo að margir þekki ekki uppruna heitisins.  Hann tekur við af sprengideginum þegar Íslendingar belgja sig út af saltkjöti og baunum.  Það er gaman að gölmum siðum og allir hafa gott af því að gera sér dagamun.   Hins vegar er boðskapur hins forna öskudags enn í fullu gildi.  Holdið er dauðlegt og tímanlegt.  Hvorki við né trén í náttúrunni lifum að eilífu.  Lífið á jörðinni er viðkvæmt og það er full ástæða til að hlúa að lífinu, hlúa að sjálfum sér og öðrum.  Notum föstuna til að byggja okkur upp og gera öðrum gott.

 

Magnús Erlingsson,

prestur á Ísafirði.

DEILA