Það er staðreynd að við erum að ganga inn í kólnandi hagkerfi eftir uppsveifluna undanfarin ár. Líkt og í þeim lægðum sem dunið hafa á okkur skiptir undirbúningurinn mestu máli. Ennþá er hægt að draga úr niðursveiflunni með réttum ákvörðunum. Ríkisstjórnin hefur nú þegar brugðist við með því að fjárfesta í innviðum og margvíslegum framkvæmdum en það þarf meira að koma til. Auka þarf verðmætasköpun í landinu.
Byggjum undir fiskeldið
Fiskeldið er ný atvinnugrein sem hefur verið að byggjast upp á undanförnum áratug. Á síðasta ári var útflutningsverðmæti um 25 ma.kr. og hefur því tvöfaldast á milli ára. Talið er að ef framleiðslan fari í það magn sem burðaþolsgeta þeirra svæða sem fiskeldinu er afmarkað segir til um verði útflutningsverðmætið nær 65 ma.kr. Þá væri einnig hægt að auka umsvif og verðmæti fiskeldisins með því að auka fullvinnslu aflans og fjölga þar með þeim störfum sem snúa að þessari atvinnugrein, líkt og Færeyingum hefur tekist. Fjárfesting upp á tugi milljarða liggur í greininni og frekari fjárfesting bíður eftir frekari leyfum til rekstrar.
Uppbygging innviða
Það þarf líka að huga að uppbyggingu samgangna í þeim byggðarlögum sem byggja á fiskeldi svo atvinnugreinin geti eflst enn frekar. Samgönguáætlun gerir ráð fyrir að grunnnet samgangna á Vestfjörðum verði fært til nútímans innan fimm ára en við eigum ekki að stoppa þar, heldur að huga enn frekar að viðhaldi og endurgerð vega á milli þéttbýlisstaða. Þannig tryggjum við leiðslurnar sem veita aukið vítamín í efnahagslífið.
Það þarf að styrkja stofnanir sem sjá um eftirlit og leyfisveitingar svo þær geti sinnt starfi sínu, þannig sjáum við til þess að leikreglurnar byggist alltaf á bestu fáanlegu vísindum og rannsóknum. Við yfirvofandi efnahagslægð verðum við að gefa fiskeldinu meiri gaum og þar með aukum við innspýtingu í hagkerfið.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.