Næstu vikur verður ýmislegt í boði hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða sem getur nýst fólki bæði í leik og starfi.
Fjögur námskeið eru sérstaklega ætluð fólki af erlendum uppruna. Mánudaginn 24. febrúar verður fræðsla fyrir Pólverja um skattamál á Íslandi og í byrjun mars hefjast þrjú íslenskunámskeið fyrir fólk með mis mikla kunnáttu í íslensku, íslenska 3a hefst 2. mars, íslenska 2b hefst 3. mars og íslenska 1b hefst 11. mars.
Tvö námskeið eru á dagskrá sem snerta mat á einhvern hátt. Þann 5. mars verður Helga Konráðsdóttir hússtjórnarkennari með námskeið um súrdeigsbakstur. Nokkur slík hafa verið haldin og hafa þau notið vinsælda.
Í lok mars er svo matreiðslunámskeið sem ber hið frumlega heiti Hamfarahlýnun í hádegismat. Þar ætlar Dóra Svavarsdóttir matreiðslumeistari hjá Culina að fjalla um mat í samhengi við loftslagsmál og þátttakendur elda saman nokkra rétti sem eru í sátt við umhverfið.
Helena Jónsdóttir sálfræðingur verður með tvö námskeið hjá Fræðslumiðstöðinni á næstu vikum. Stutt námskeið sem kallast Þorðu að vera bara meðal – áskorun fyrir fullkomnunarsinna og annað sem er um öryggi í samskiptum.
Dagana 12. og 13. mars verður Ingibjörg Gísladóttir ráðgjafi með tvö námskeið, annars vegar um skýra og markvissa innri upplýsingamiðlun og hins vegar um fjölbeyttari og virkari fundir.
Loks má nefna að um mánaðamótin mars-apríl verður í samvinnu við Rauða krossinn haldið 12 klukkustunda skyndihjálparnámskeið.