Þegar Sjómannasamband Íslands afhenti útvegsmönnum kröfur sínar gerðist það fáheyrða í kjarasamningum að útvegsmenn lögðu fram kröfur sínar í 19 liðum á hendur sjómönnum.
Fyrsta krafa Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) fyrir hönd útvegsmanna er að sjómenn greiði hlut í sköttum útgerða, s.s. veiðigjaldi, tryggingagjaldi og kolefnisgjaldi. Þá er gerð krafa um að framlengja nýsmíðaálaginu og vill SFS að samið verði um nýsmíðaálag varðandi næstu kynslóð fiskiskipa.
Þriðja krafan sem vekur athygli er að kvótakaup frá erlendum aðilum verði dregin frá óskiptu. með öðrum orðum að sjómenn greiði kvótakaupin.
Bergvin Eyþórsson, varaformaður VerkVest sagði í samtali við Bæjarins besta að best væri að segja sem minnst um þessar kröfur en sagði þó það að honum fyndist óforskammað af útvegsmönnum að leggja fram kröfupakka á hendur sjómönnum.
Kröfurnar 19 eru þessar:
- Sjómenn greiði hlut í sköttum útgerða, s.s. veiðigjaldi, tryggingagjaldi og kolefnisgjaldi.
- Sjómenn greiði þriðjung kostnaðar útgerðar við að slysatryggja sjómenn.
- Sjómenn í skiptimannakerfum gefi eftir veikindarétt sinn þannig að þeir fái aðeins greitt fyrir þá túra sem þeir hefðu verið um borð samkvæmt plani.
- Nýsmíðaákvæði breytist þannig að togararall Hafró verði undanskilið í útreikningi úthaldsdaga. Samið verði um nýsmíðaálag varðandi næstu kynslóð fiskiskipa.
- Helgar- og hafnarfrí falli út en skipverjum verði tryggðir frídagar eftir nánara samkomulagi við útgerð. Sérákvæði um frí um Páska falli niður og Jólafrí á uppsjávarskipum verði stytt.
- Kauptryggingartímabil verði lengt í þrjá mánuði.
- Uppgjöri á frystitogurum verði breytt þannig að 90% uppgjör af aflaverðmæti til sjómanna falli út og lengri tími verði veittur til fullnaðaruppgjörs.
- Heimilt verði að ráða sjómenn til útgerðar í stað þess að ráða á tilgreind skip.
- Endurskoðaðar verði greiðslur útgerðar í styrktar- og sjúkrasjóði.
- Skiptakjör og uppgjörsaðferðir verði endurskoðaðar varðandi einstakar veiðigreinar.
- Heimilt verði að ráða áhafnarmeðlimi á öðrum kjörum en aflahlut.
- Heimilt verði að ráða fleiri en einn skipverja í eina stöðu, þ.e. tvo eða fleiri um eitt hásetapláss.
- Sektir fyrir brot á kjarasamningum verði felldar niður.
- Sömu kjarasamningar gildi á öllu landinu. (Verk Vest og ASA renni inn í SSÍ).
- Kostnaður við geymslu afurða verði dreginn af óskiptu gegn hlut áhafnar í hærra söluverði.
- Fiskur sem meðafli á rækjuveiðum verði gerður upp samkvæmt ákvæðum um fiskveiðar.
- Ákvæði kjarasamninga um löndun verði tekin til endurskoðunar.
- Kvótakaup frá erlendum aðilum verði dregin frá óskiptu.
- Enginn matsveinn verði á minni bátum og ákvæði um aðstoðarmann matsveins falli brott.