Drög að frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum sem innleiðir á ný ákvæði um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Samkvæmt frumvarpinu verður lágmarksíbúafjöldi 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022 og 1.000 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2026.
Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með fimmtudagsins 27. febrúar 2020.
Efni frumvarpsins er í megindráttum tvískipt. Annars vegar þau ákvæði sem hafa þann tilgang að mæla fyrir um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, aðlögun að slíku ákvæði og hvernig málsmeðferð skuli háttað þegar ráðherra hefur frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga.
Hins vegar önnur ákvæði frumvarpsins sem tengjast sameiningum sveitarfélaga, svo sem ákvæði sem skýrir heimildir sveitarfélaga til að nýta fjarfundarbúnað á fundum sínum. Þá er lagt til að sveitarfélög þurfi að móta stefnu um þjónustustig byggða sem eru fjarri stærri byggðakjörnum.
Hvað varðar lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga er lagt til að aftur verði tekið upp ákvæði í sveitarstjórnarlög sem kveður á um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga og að miðað verði við 1.000 íbúa.
Þá er lagt til að haldið verði í þá reglu sem áður var að finna í sveitarstjórnarlögum frá 1986 og 1998 um að miða skuli við að íbúafjöldi sveitarfélaga þurfi að vera undir lágmarksíbúamarkinu þrjú ár í röð, áður en ráðuneyti sveitarstjórnarmála beri að hafa frumkvæði að sameiningu sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög.
Þá verður ráðherra fengin heimild til að veita sveitarfélagi tímabundna undanþágu til allt að fjögurra ára frá skilyrði um lágmarksíbúafjölda, ef sérstakar félagslegar eða landfræðilegar aðstæður eru til staðar.