Ráðherrar kynna styrki til orkuskipta

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hafa ákveðið að veita 200 milljónum króna í styrki til uppbyggingar innviða fyrir orkuskipti í samgöngum.

Þetta kemur til viðbótar við styrki sem úthlutað var á síðasta ári, en að teknu tilliti til mótframlags styrkþega verður fjárfesting í innviðum vegna orkuskipta alls um milljarður króna á tveimur árum.

Verkefnið er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og uppbyggingu innviða vegna orkuskipta í samgöngum.

Þrenns konar styrkir
Áætlað er að verja 100 milljónum króna í styrki fyrir innviði sem ætlað er að ýta undir fjölgun vistvænna bifreiða hjá aðilum sem reka fólks- og hópbifreiðar. Aðgerðin nær til allra vistvænna bíla, hvort sem þeir ganga fyrir metani, lífeldsneyti, vetni eða rafmagni.

Þá verður 70 milljónum króna varið í styrki vegna raftenginga eða hitaveitna í höfnum landsins í því skyni að ýta undir orkuskipti í haftengdri starfsemi.

Loks verður 30 milljónum króna varið í styrki fyrir hleðslustöðvar við gististaði og veitingastaði og er þar um að ræða framhald á styrkveitingum síðasta árs sem miðuðu m.a. að því að auðvelda orkuskipti í ferðaþjónustu.

DEILA