Kjarninn reynir að grafa undan Hvalárvirkjun

Í gær birtist löng frétt á Kjarnanum um Drangajökul. Þar er greint frá rannsókn sem var doktorsverkefni David John Harning. Þar athugaði hann forsögu jökulsins síðustu 10 þúsund árin. Á þeim tíma hvarf jökullinn þegar veðurfar hlýnaði og kom svo aftur þegar kólnað hafði fyrir um 2.000 árum. Komist er að þeirri niðurstöðu að vænta megi þess að Drangajökull hverfi að nýju vegna hlýnunar og því slegið upp að jökullinn gæti verið horfinn 2050.

Fréttamaðurinn Sunna Ósk Logadóttir, sem nýkomin er til starfa á Kjarnanum,  heldur áfram andstöðu sinni við Hvalárvirkjun þar sem frá var horfið þegar hún hætti að skrifa í Morgunblaðið. Hún tengir saman bráðnun jökulsins og Hvalárvirkjun og segir:

„Þessar nýtilkomnu upplýsingar geta nýst til framtíðarstefnumótunar, ekki síst þeim sem koma að fyrirhuguðum vatnsaflsvirkjunum á svæðinu. Sé þeim ætlað að virkja jökulvatn þarf að vega og meta kostnaðinn við byggingu þeirra og þess líftíma sem af þeim er að vænta með tilliti til bráðnunar jökulsins.“

Svo útfærir hún þetta almennt og skrifar:

„Þar sem vatnsaflsvirkjanir í jökulám framleiða yfir 70% allrar raforku hér á landi er skilningur á þróun jökla sérlega mikilvægur fyrir orkuöryggi landsins.“

Fréttinni er lokið þessum orðum:

„Þetta er vegna þess að hið augljósa blasir við: Ef jökull bráðnar hætta jökulár að renna frá honum og jökulvötn hverfa sömuleiðis.

Þrjár virkjanir eru fyrirhugaðar í nágrenni Drangajökuls: Austurgilsvirkjun, Skúfnavatnavirkjun og Hvalárvirkjun.“

Þetta er alveg skýrt. Blaðamaðurinn Sunna Ósk er að segja að væntanleg bráðnun Drangajökuls verði Hvalárvirkjun ekki raunhæf.

Þá er að athuga málið. Því má skipta í tvennt. Annars vegar áhrif bráðnunar jökla á virkjanir sem sækja vatn í jökulár og hins vegar áhrifin á Hvalárvirkjun sérstaklega.

Almenn áhrif: meira vatn og aukin framleiðsla

Einfaldast er að byrja á umfjöllun í Morgunblaðinu frá 31. ágúst 2012. Þar segir Helgi Björnsson, jarðeðlisfræðingur að „Það er von á meira afrennsli frá jöklum næstu 50 árin og það mun haldast í hámarki í ca. 20 ár en eftir 100 ár fer þetta að lækka töluvert“ og segir samkvæmt orðréttri frásögn í Morunblaðinu: „að í framtíðinni þurfi að standa öðruvísi að vatnssöfnun. Nú fái menn vatnið í virkjanirnar beint frá jöklum, a.m.k. í þeim tilvikum þegar jökulár eru virkjaðar. Helgi segir verkfræðinga framtíðarinnar m.a. þurfa að leysa hvernig best verði að safna saman því vatni sem fellur á hálendið í formi úrkomu svo það megi nýta áfram til orkuframleiðslu.“

Með öðrum orðum verði ekki skortur á vatni þótt jöklar bráðni.

Í sömu umfjöllun segir  Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar að afrennslu frá jöklum muni aukast við bráðnun og geti orðið 20% meiri árið 2050 í þeim vatnsföllum sem þegar hafa verið virkjuð.

Orðrétt hefur Morgunblaðið eftir Magnúsi:

„Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að bráðnun jökla ógnar ekki rekstri vatnsaflsvirkjana heldur þvert á móti felast í því aukin tækifæri,“ segir Magnús.

Því má bæta við að Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar var spurður á ársfundi 2018 einmitt um áhrif af bráðnum jökla á Landsvirkjun og hann svaraði á svipaðan hátt og fram kemur í Morgunblaðinu 2012, að framleiðslugetan myndi ekki minnka heldur aukast í marga áratugi á eftir. Hörður benti á að bráðnun jökla leiddi ekki til minni úrkomu heldur til minni snjóalaga og virkjanirnar byggjast á rennandi vatni.

Svo útleggingar Sunnu Óskar Logadóttur í Kjarnanum um bráðnum jökla og skemmri líftíma virkjana jökuláa fær engan stuðning í svörum þeirra sem til þekkja. Þetta er einfaldlega staðhæfing sett fram án nokkurs rökstuðnings og er ekker annað en  spuni.

Hvalárvirkjun án jökuláa

Þá er það Hvalárvirkjunin. Þar eru staðreyndirnar skýrar. Það eru ekki virkjaðar neinar jökulár í þessu tilviki. Það kemur ekkert vatn úr Drangajökli í hana. Hvalárvirkjun nýtir dragár og með gerð lóna er safnað regn- og leysingarvatni á vorin og sumrin til þess að láta það renna á öðrum tíma árs og hafa það jafnara en ella. Jafnvel þótt Drangajökull muni hverfa á næstu áratugum er ekki þess að vænta að það hafi áhrif á Hvalárvirkjun. Úrkoman heldur áfram að falla en í minna mæli sem snjór og í meira mæli sem rennandi vatn. Það dregur ekki úr getu Hvalárvirkjunar heldur miklu fremur eykur framleiðslugetuna a.m.k. í marga áratugi. Afskriftartími virkjana er 30 – 50 ár, þótt endingartíminn sé örugglega mun lengri. Það eru sem sé engin rök fyrir þeirri staðhæfingu að bráðnun Drangajökuls  geri Hvalárvirkjun síður arðbæra framkvæmd vegna skamms endingartíma.

Öðru nær, það er álit vísindamanna að framleiðsla rafmagns muni aukast vegna aukins vatnsmagns. Svo bráðnunin styrkir arðsemisútreikningana. Það er niðurstaðan sem Kjarninn hefði átt að komast að í fréttinni um Hvalárvirkjun í gær – ef stuðst hefði verið við tiltækt mat vísindamanna og álit þeirra sem fást við að reisa og reka virkjanir.

En það var ekki gert af því það passaði ekki fyrirframgefinni skoðun. Kjarninn getur gert betur.

-k

 

DEILA