Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 25 milljörðum króna á árinu 2019, sem er 90% aukning frá fyrra ári.
Hefur útflutningsverðmæti eldisafurða aldrei verið meira og rímar þessi þróun vel við spá okkar fyrir árið. Í erlendri mynt var aukningin aðeins minni, eða 75%, þar sem gengi krónunnar veiktist um tæp 8% á milli ára sé tekið mið af ársmeðaltali gengisvísitölunnar.
Rúmlega 90% af eldisafurðum eru flutt út og hefur gengi krónunnar þar með veruleg áhrif á afkomu greinarinnar, líkt og annarra útflutningsgreina.
Útflutningsverðmæti eldisafurða var um 10% af verðmæti sjávarafurða á árinu 2019 og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Ekki er við öðru að búast en hlutfallið hækki enn frekar á næstu árum samfara aukinni framleiðslu og þar með útflutningi, enda eru þar veruleg tækifæri til verðmætasköpunar. Ítarlegri umfjöllun um þetta má sjá á Radarnum, en þar hafa tölur sem og umfjöllun verið uppfærð.