Mikill meirihluti landsmanna býr í dag í þéttbýli, eða 95%, en í byrjun síðustu aldar var raunin hins vegar talsvert önnur þegar sama hlutfall var einungis tæplega fjórðungur eða 24%.
Breytingin er síðan enn meiri sé farið aðeins lengra aftur í tímann og miðað við árið 1880 en þá var hlutfall þeirra sem bjuggu í þéttbýli aðeins 11%. Þessi gríðarlega breyting sést vel myndinni.
Miklar þjóðfélagsbreytingar á Íslandi felast á bak við þessar tölur sem m.a. fólu í sér búferlaflutninga úr sveitum landsins til þéttbýlisstaða viðs vegar um land jafnhliða umbreytingu atvinnulífsins frá landbúnaði, sem aðalatvinnuvegar landsmanna í gegnum aldirnar, yfir í sjávarútveg, iðnað og þjónustu.
Árið 1982 var svo komið að rúmlega 90% landsmanna bjuggu í þéttbýli, eða 212.400 manns, og var fjöldi þéttbýliskjarna kominn í 101. Þar með var tala íbúa í strjálbýli komin undir 10% mörkin og íbúafjöldinn þar um 23.000. Á síðustu áratugum hefur þróunin haldist áfram hægt og bítandi og eru þéttbýlisbúar í dag um 95% landsmanna (í 106 þéttbýliskjörnum) á móti 5% íbúum sem búa í strjálbýli.