Vegagerðin : yfirvofandi niðurskurði á sunnanverðum Vestfjörðum andmælt

Lilja Magnúsdóttir, Bjarnveig Guðbrandsdóttir og Iða Marsibil Jónsdóttir. Mynd: Rebekka Hilmarsdóttir.

Sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðahreppur funduðu með Vegagerðinni í gær um vetrarþjónustu Vegagerðarinnar á sunnanverðum Vestfjörðum, bæði innan svæðis sem og utan þess. Fundinn sátu Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, Rebekka Hilmarsdóttir bæjarstjóri, oddviti Tálknafjarðahrepps Bjarnveig Guðbrandsdóttur og Lilja Magnúsdóttir ásamt fulltrúum Vegagerðarinnar.

Á fundinum var farið yfir mikilvægi vetrarþjónustu Vegagerðarinnar fyrir íbúa sem og atvinnurekendur á sunnanverðum Vestfjörðum. Þá var einnig rætt um mikilvægi þess að þjónustan taki mið af þörfum atvinnurekenda á svæðinu, m.a. vegna starfsmanna sinna við að komast til vinnu innan svæðis sem og flutningur verðmæta innan og utan svæðis.

Þungaflutningar hafa aukist gríðarlega, allt árið um kring og mikilvægt að tryggt sé að verðmæti sem unnin eru á svæðinu komist áfram til útflutnings. Einnig var rætt um mikilvægt hlutverk ferjunnar Baldurs yfir Breiðafjörð, m.a. þegar vetrarþjónusta er erfið á Klettshálsi.

Á fundinum var einnig farið yfir áhyggjur af skerðingu á vetrarþjónustu sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Voru fulltrúar sveitarfélaganna sammála um að ekki væri unnt að draga úr þeirri lágmarksvetrarþjónustu sem Vegagerðin veitir innan sem utan svæðis. Heldur þyrfti að auka enn frekar vetrarþjónustu en flestir vegir á svæðinu eru í þjónustuflokki 3 hjá Vegagerðinni.

Að sögn Rebekku Hilmarsdóttur voru þau svör gefin á fundinum að ekki lægi fyrir með hvaða hætti hagræðingarkröfunni  yrði náð.

 

DEILA