Flateyri : Hvest að leigja húsnæði

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er á næstu dögum að fara að skrifa undir samning vegna húsnæðis fyrir tímabundið heilsugæslusel á Flateyri sem ætti að geta opnað á næstu vikum segir Gylfi Ólafsson, forstjóri stofnunarinnar.

Þá er verið að setja saman viðbragðsbúnað sem staðsettur verður á stöðum sem útsett eru fyrir ófærð.

Í þriðja lagi verða haldin tvö námskeið fyrir vettvangsliða.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur í samvinnu við Slökkvilið Ísafjarðarbæjar beðið Sjúkraflutningaskóla Íslands um að halda tvö námskeið fyrir vettvangsliða í vor.

Haldin verða námskeið á Ísafirði 24.–26. apríl og á Patreksfirði helgina 1.-3. maí.

Vettvangsliðar er samheiti yfir fyrstuhjálparliða sem nýttir eru í auknum mæli til þess að stytta tímann þar til fyrsta viðbragð berst og brúa bilið milli skyndihjálpar og sérhæfðra sjúkraflutninga. Þannig geta þorp sem eru langt frá sjúkrahúsi eða eiga á hættu að lokast af í ófærð sinnt brýnustu heilsufarsvandamálum sem upp geta komið.

Námið er 40 stunda og skiptist í tvennt. Fyrri hlutinn er fjarnám sem hægt er að taka á sínum hraða en seinni hlutinn staðlota sem nær yfir heila helgi.

Heilbrigðisstofnunin greiðir námskeiðsgjöld en ekki er greitt fyrir að sitja námskeiðið. Vettvangsliðar eru sjálfboðaliðar.

Fólki á öllum aldri sem treystir sér er velkomið að sækja um. Gerð er krafa um að umsækjendur séu búsettir á Flateyri, Suðureyri, Súðavík, Bolungarvík, Þingeyri, Tálknafirði, Bíldudal eða Hnífsdal. Takmarkaður fjöldi plássa er í boði að sinni, og forgangsraðað þannig að umsækjendur dreifist vel og að þau þorp sem oftast lokast vegna ófærðar fái pláss.

„Það er ýmislegt sem við lærum af atburðum síðustu vikna og mánaða. Meðal þess er áminningin um þörfina fyrir að grunnbúnaður sé í öllum þorpum og að til staðar sé fólk með grunnþjálfun í að takast á við bráðatilfelli,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Umsóknir sendast beint til Sjúkraflutningaskólans (www.ems.is [norðursvæði, suðursvæði]. Frestur til að skrá sig rennur út 6. mars 2020.

DEILA