Það er erfitt að vita hvar á að byrja. Þeir atburðir sem við höfum upplifað síðustu vikur hér á Flateyri eru eitthvað sem fæst okkar, og sennilega engin, bjuggumst við.
Eftst í huga manns, nú þegar hlutirnir eru farnir að róast, er þakklæti og þar fyrst og fremst þækklæti fyrir að enginn lét lífið. Okkar litla björgunarsveit fékk þetta kvöld eitt það stærsta verkefni sem flestir okkar höfðu tekist á við, þvílíkt sem maður er stoltur að fá að vera partur af þessum ótrúlega hópi. Þessa nótt upplifðum við eitthvað sem við héldum að við myndum alls ekki upplifa aftur. Við bárum fullt traust til varnargarðsins okkar, 100% traust, en það var kannski barnalegt að halda að við gætum vitað eitthvað með 100% vissu þegar náttúran er annars vegar. Kvöldið stefndi í að vera bara eins og hvert annað kvöld. Ég var ekki búinn að liggja lengi uppi í rúmi þegar ég heyrði tvo stóra hvelli og átta mig strax á að þetta væri eitthvað óvenjulegt, jafnvel eitthvað til að hræðast. Ég sagði við einhvern fjölmiðilinn að mér hafi þótt hljóðið ónáttúrulegt, en í raun gerast þau ekki mikið meira náttúruleg, hljóðin sem fylgja náttúruhamförum.
Eitt af því sem stendur upp úr er hvað allir vildu fá að gera eitthvað, fólk spurði ekki hvort það gæti eða mætti hjálpa, það krafðist þess, krafðist þess að fá verkefni og tilgang. Allan þennan tíma sem við stóðum í þessum verkefnum voru allir boðnir og búnir að hjálpa og hjálpin barst oft áður en maður áttaði sig einu sinni á að hennar væri þörf.
Takk.
Takk Gunna og Jónsi fyrir að opna fyrir okkur Gunnukaffi og kippa ykkur ekki upp við þó við legðum undir okkur kaffihúsið ykkar í tæplega viku.
Gunna í Breiðadal fyrir allt heimabakaða bakkelsið, það sló í gegn.
Maggi og Sunna fyrir að taka þá ákvörðun að koma fólki sem var eitt heima í öruggt skjól til vinafólks og eins að opna heimili ykkar fyrir þeim.
Siggi Hafberg fyrir aðstoð í Ólafstúni á meðan á aðgerðum stóð.
Palli Önna fyrir að skutlast um allan bæ með okkur.
Sigrún fyrir að stökkva til og opna sundlaugina bæði í aðgerðinni og eftir hana þegar hún opnaði fyrir okkur heita pottinn þar sem við gátum slakað á eftir erfiða daga.
Heiða, það er ekki hægt að lýsa því hversu þakklát við Flateyringar erum fyrir að hafa Heiðu hjá okkur. Ég man hún sagði við mig eitthvað í þá átt „ef þið þurfið á mér að halda, þá kem ég“. Hún var mætt uppí sundlaug með það sama og var með þeim síðustu sem fóru þaðan.
Ívar Kristjánsson. Dagana fyrir flóðin var búið að vera hríðarveður í þó nokkuð marga daga en samt var mokstursmaðurinn okkar hann Ívar búinn að vera að halda götum opnum og fyrr þetta kvöld þegar hann var að moka Ólafstúnið þá mokaði hann extra vel í kringum Ólafstún 14 sem hjálpaði gríðarlega til við björgunaraðgerðir og það er algjörlega ómetanlegt að hafa svo harðduglegan mann í mokstri á Flateyri.
Brottflutir Flateyringar, bekkjarfélagar og fyrrum meðlimir björgunarsveitarinnar Sæbjargar fyrir fallegar baráttukveðjur, þær yljuðu mikið og gera enn.
Björgunarsveitirnar í kringum okkur, þvílíkt sem gott var að fá ykkur strax um nóttina. Það veitti okkur mikla krafta að sjá hvað margir komu og vildu leggja hönd á plóg, ómetanlegt í öllum þeim verkefnum sem biðu okkur næstu daga. Einnig þeir björgunarsveitarmenn sem komu enn lengra að og léttu undir með því að veita okkur kærkomna hvíld.
Rauði Krossinn fyrir snör viðbrögð og ómetanlegan stuðning við alla þorpsbúa í kjölfar áfallanna og Helena Jónsdóttir sálfræðingur okkar Flateyringa fyrir þitt framlag.
Atvinnurekendur okkar fyrir skilning á aðstæðum og fallegar kveðjur.
Eigendur gistiheimila í bænum sem hýstu björgunarsveitarmenn allan þennan tíma.
Þeir sem ákváðu upp á eigið fordæmi að setja af stað söfnun með því að byrja að deila á facebook mynd af reikningsupplýsingum okkar.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fyrir mikinn stuðning, allt frá því að taka stórar ákvarðarnir eins og að láta hreinsa varnargarðana með jarðýtu, yfir í að moka af svölunum hjá varaformanni björgunarsveitarinnar þar sem snjóþungi var orðin gífurlegur. Einnig fyrir fallegan styrk til okkar og annarra sveita á svæði 7.
Ég er örugglega að gleyma einhverjum og svona þakkarlisti verður aldrei tæmandi eftir viku eins og þá sem við upplifðum eftir flóðin, en í lokin langar mig að segja hvað það er algjörlega magnað að finna þessa samstöðu sem er í þorpinu okkar. Öll að hugsa hlýtt til hvers annars, tékka hvernig nágrannanum líður, taka utan um hvort annað, hlæja saman, gráta saman og síðast en ekki síst standa saman. Ég vil líka þakka loforðin sem bæjaryfirvöld hafa þegar staðið við og ákvarðarnir sem teknar hafa verið núna síðustu daga, allt er þetta þvílíkur styrkur fyrir okkur. Við finnum að fólk er að leggja sig fram við að hjálpa okkur að finna til öryggis á ný og það skiptir máli svo okkur líði áfram vel á Flateyri.
Fyrir hönd Björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri
Magnús Einar Magnússon, formaður.