Ráðherra fjallaði um áskoranir í samgöngumálum á ráðstefnu í Háskóla Íslands

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti í gær ávarp á ráðstefnu Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands um áskoranir í samgöngum.
Ráðherra sagðist hafa frá því að hann kom í ráðuneyti samgöngumála lagt sérstaka áherslu á að breyta forgangsröðun og flýta framkvæmdum á umferðarþyngstu vegunum.

Þá fjallaði Sigurður Ingi um ólíkar áskoranir í dreifbýli og þéttbýli.

„Fyrir þá sem búa á landsbyggðinni hefur það sýnt sig að öflugt innanlandsflug er byggðunum lífsnauðsynlegt. Raunar er það svo að þar sem fara þarf langt á milli hér á landi, milli Austurlands og höfuðborgarsvæðisins, er innanlandsflug sá samgöngumáti sem flestir nýta.

Öflugt og samþætt kerfi innanlandsflugs, áætlunarbíla og ferja sem er raunhæfur kostur fyrir alla, óháð efnahag, er því mikilvægt framlag til aðstöðujöfnunar íbúa á landsbyggðinni. Stór liður til að jafna aðstöðumun landsmanna er hin svokallaða skoska leið, þ.e. greiðsluþátttaka stjórnvalda til þeirra íbúa á landsbyggðinni sem koma langt að og þurfa að fara fljúgandi. Jöfn tækifæri og aðgengi fyrir alla hefur verið, er enn og mun halda áfram að vera einn megin áskorun þjóðarinnar í samgöngumálum,“ sagði Sigurður Ingi í ávarpi sínu.

DEILA