Ferðamálastofa býður í samvinnu við Vestfjarðastofu upp á námskeið í stafrænni markaðssetningu sem ætlað er litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Farið verður í helstu atriði stafrænnar þróunar og markaðssetningar ferðaþjónustufyrirtækja, svo sem bókunarsíður (Booking og Expedia t.d.), Google, samfélagsmiðla og heimasíður, leitarvélabestun og gerð markaðsáætlana.
Námskeiðið verður lifandi og hagnýtt og gert er ráð fyrir að þátttakendur taki með sér tölvur, bretti upp ermar og vinni markvisst á meðan á námskeiðinu stendur.
Þau fyrirtæki sem taka þátt í námskeiðinu eiga kost á að sækja styrk til Vestfjarðastofu um áframhaldandi ráðgjöf á einhverju sviði stafrænna mála eða markaðssetningar,
Námskeiðið sem stendur í tvo daga verður haldið dagana 23. janúar og 5. febrúar á Ísafirði og kennari er Inga Rós Antoníusdóttir, verkefnastjóri stafrænnar þróunar hjá Ferðamálastofu.