Blaklið Vestra vann KA á sunnudaginn í Mizunodeildinni með þremur hrinum gegn tveimur.
Þessi sömu lið mættust í daginn áður og vann KA þá öruggan sigur. Seinni leikurinn var mun meira spennandi og fór leikurinn alla leið í oddahrinu.
Fyrsta hrinan var nokkuð jöfn en Vestri hafði þó örugga forystu um miðja hrinuna. KA saxaði smám saman á forystuna og var nálægt því að stela sigri í hrinunni. Vestri vann þó 25-23 og leiddi 1-0. Vestri tók svo öll völd í annarri hrinu og vann hana auðveldlega, 25-16.
KA var nú 0-2 undir og þeir breyttu uppstillingu sinni eftir aðra hrinuna. Þá gekk mun betur hjá gestunum sem unnu næstu tvær hrinur sannfærandi, 17-25 og 14-25. Í oddahrinunni var Vestri skrefi á undan frá upphafi hrinunnar og tók öll völd eftir miðja hrinuna sem lauk með 15-9 sigri heimamanna.
Juan Manuel Escalona Rojas var stigahæstur í liði heimamanna með 25 stig, þar af 8 beint úr uppgjöf, en næstur kom Hafsteinn Már Sigurðsson með 15 stig. Miguel Mateo Castrillo og Alexander Arnar Þórisson skoruðu 19 stig hvor fyrir KA.
Þetta var annar sigur Vestra á tímabilinu og eru þeir nú með 5 stig. Fyrsti sigurinn kom 24.11. 2019 á Ísafirði gegn Aftureldingu. Þrátt fyrir sigurinn sitja þeir á botni deildarinnar, 7 stigum á eftir KA og Aftureldingu. KA jafnaði við Aftureldingu í 4.-5. sætinu og eru bæði lið með 12 stig eftir 10 leiki.
Vestri sækir Þrótt Nes heim dagana 25.-26. janúar næstkomandi og mæta heimamönnum tvívegis.