Súðavíkurhreppur og lögreglustjórinn á Vestfjörðum boða til íbúafunda í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri og í Súgandafirði þann 14. janúar 2020. Fundurinn verður haldinn í Súðavíkurskóla þriðjudaginn 21. janúar 2020 og er öllum opinn. Fundur hefst klukkan 20:00.
Fundarstjóri verður Rögnvaldur Ólafsson frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, en á fundinum verða m.a. fulltrúi lögreglustjórans og fulltrúar frá eftirfarandi aðilum:
Ofanflóðasjóði
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
Rauða krossi Íslands
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra
Umhverfisstofnun
Svæðisstjórn björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar
Fundurinn er haldinn til þess að taka stöðuna, svara spurningum og greina það sem þarf að bæta og hægt er að bæta varðandi öryggi og viðbragð vegna ofanflóðavár. Einnig til þess að upplýsa um það sem er til staðar og þarf að vera til staðar. Hér gefst tækifæri til þess að ræða þær spurningar sem vakna á þeim tímum þegar hættuástand eða óvissuástand er metið og lokanir hamla samgöngum, aðföngum og björgum.
Dagskrá verður sniðin að aðstæðum hér í Súðavíkurhreppi.
Fundur þessi er haldinn sem liður í fundaferð almannavarna, ríkislögreglu og þeirra aðila sem nefndir eru og verða fulltrúar á fundinum.
Bragi Þór Thoroddsen