Miðflokkurinn vill fleiri heilbrigðisverkefni út á land

Þingflokkur Miðflokksins hvetur heilbrigðisráðherra til að bregðast nú þegar við þeim fjölmörgu vandamálum sem starfsfólk Landspítalans hefur bent á nýverið. Þá skorar þingflokkurinn á ríkisstjórnina að láta framkvæma ítarlega stjórnsýsluúttekt á spítalanum, tryggja mönnun í samvinnu við fagstéttir, samþykkja tillögu Miðflokksins  um að setja stjórn yfir spítalann til stuðnings og aðhalds með framkvæmdastjórn ásamt því að grandskoða fjármál þessa mikilvægasta sjúkrahúss landsins.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Miðflokknum.

Þingflokkurinn hvetur einnig til þess að heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús á landsbyggðinni fái aukin verkefni og létti þannig á Landspítala. Á Akranesi, Selfossi og í Reykjanesbæ svo eitthvað sé nefnt er aðstaða og starfsfólk sem er fullfært til að sinna mörgum af þeim verkefnum sem LSH sinnir í dag.

Þá hvetur þingflokkurinn ráðherra til að láta af úreltri ráðstjórnarhugsun og semja nú þegar við einkaaðila um aðgerðir, umönnun, hjúkrun og annað sem stytt getur biðlista og bætt ástandið í heilbrigðiskerfinu.

 

Til að bæta þjónustu og mönnun á landsbyggðinni er ríkisstjórnin hvött til að taka upp hvatakerfi að erlendri fyrirmynd þar sem sérfræðingum er ívilnað fyrir störf sín í dreifðari byggðum.

Loks hvetur þingflokkurinn heilbrigðisráðherra til að beita sér fyrir að heilbrigðisstarfsfólk tjái sig um áhyggjur sínar og leggi með þeim hætti fram tillögur til lausnar á vandamálum sem við er að etja.

 

DEILA