Ég fékk einu sinni spurningu í sjónvarpsviðtali eftir að ég hafði verið bæjarstjóri í Bolungarvík í tvö ár eða svo. „Hvort ertu Bolvíkingur eða Ísfirðingur?“ Spurningin kom mér í opna skjöldu og með myndavélina í andlitinu var ómögulegt annað en að svara því sem kom fyrst upp í hugann. „Ég er Bolvíkingur“
Ég fékk smá skammir frá Ísfirskum vinum mínum, enda kannski eðlilegt að þeir séu sárir þegar ég er jú fæddur á Ísafirði og bjó þar og starfaði í yfir 35 ár. Ég man eftir að það birtist grein í Bæjarins Besta fyrir nokkrum árum þar sem beinlínis voru gefnar út nákvæmar reiknireglur um hvernig hægt væri að finna út hversu mikill Ísfirðingur þú værir, með því að reikna hlutfall þeirra ára sem þú varst búinn að búa á Ísafirði þar sem skólaárin væru frádráttarbær. Ég var á þeim tíma um 96% Ísfirðingur. Mér reiknast til í dag að samkvæmt þessum reglum er ég rétt um 8% Bolvíkingur. Það er því ekkert að óttast fyrir ísfirsku vini mína. Ég afneita ekki Ísafirði, ég elska Ísafjörð. Enda væri ég ekki á þeim stað sem ég er í dag án hans.
Samt hélt ég því fram fullum fetum í sjónvarpi allra landsmanna að ég væri víst „Bolvíkingur.“ Ég hef síðan oft hugsað til þessarar „uppákomu“ síðan. Af hverju svaraði ég án þess að hika að ég væri Bolvíkingur og af hverju skiptir þessi spurning svona miklu máli?
Það nefnilega þannig að þessi spurning er brennandi á flestum Íslendingum og ég trúi því að þetta sé brennandi spurning hjá flestum mönnum. „Hvaðan ertu?“ er fyrir svo afar mörgum sammerkt spurningunni „hver ertu?“. Og þær gerast nú ekki stærri spurningarnar en hver er ég?
Þess vegna stoppa ég svo oft við þetta blessaða viðtal og mig langar að staldra aðeins við þessa spurningu og ræða aðeins af hverju ég er Bolvíkingur.
Ég er svo ótrúlega heppinn að ég er í starfi þar sem ég fæ að hitta og tala við fólk. Alls konar fólk, við alls konar tilefni. Flest eru skemmtileg en önnur erfið, svona eins og lífið sjálft. Í gegnum öll þessi samtöl hef ég kynnst Bolungarvík og Bolvíkingum og tengst þeim órjúfanlegum böndum. Ég hef fengið að ræða við ógleymanlega karaktera og fengið innsýn í hugarheim fólks sem er duglegra en flestir aðrir sem ég hef hitt. Klárt og heillandi fólk sem ég hrífst af. Það er alveg magnað hvað það er til mikið að ótrúlegu fólki í Bolungarvík.
Ég er stoltur af því að Bolungarvík hefur frábæra innviði fyrir mig sem íbúa. Frábæran skóla, frábæran leikskóla, geggjaða sundlaug, frábært kaffihús og almennt alla innviði sem eru mér nauðsynlegir og mikilvægir. Ég á það til eins og margir að verða of samofin því sem er í kring og ég gleymi því hvað við erum að gera frábæra hluti á mörgum sviðum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég átta mig ekki alltaf heldur á því sem við erum ekki að gera vel og getum gert betur. Við erum ekki fullkomin og verðum aldrei. En stóra myndin er að við búum í samfélagi sem er að gera frábæra hluti.
Ég elska líka náttúruna í Bolungarvík. Ég elska það að geta farið á rjúpu i hádegismatnum. Geta farið á fjallaskíði eftir vinnu, geta farið í göngutúr niðrá sandi og hlaupið út að vita. Það er svo stutt í náttúruna hérna í Bolungarvík og ég hef aldrei haft annan eins aðgang að ótrúlegri náttúru.
Samfélagið er svo nálægt mér hérna í Bolungarvík. Ég elska það að ég treysti samfélaginu í Bolungarvík til að að læsa ekki bílnum eða húsinu. Að krakkarnir mínir séu einhversstaðar hjá vinum sínum og ég veit ekki hvar, nema að ég veit þeir eru á góðum stað. Ég elska að geta sagt góðan daginn og fengið bros og góðan daginn tilbaka við hvern sem ég rekst á úti á götu.
Svo er það þorrablótið. Það verður mér alltaf ógleymanleg stund þegar ég gekk inn í félagsheimilið á mitt fyrsta þorrablót. Þetta var svo mögnuð tilfinning og svo mögnuð upplifun. Sterku hefðirnar sem tengja saman dagskrána og mér fannst ég tengjast öllum í salnum órjúfanlegum böndum. Ég hefði aldrei trúað því hversu mikil áhrif þessi viðburður hafði á mig og mun gera það sem eftir er minnar ævi.
En það er hinsvegar ekkert af þessu sem gerir mig að Bolvíkingi. Það er ekki eitt atriði eða tvö sem gerir fólk að Bolvíkingum. Það sem gerir mig að Bolvíkingi er sú einfalda staðreynd að mér, Þuríði minni og börnunum mínum, líður eins og Bolvíkingum og það eru aðrir Bolvíkingar sem láta okkur líða þannig. Ég hef sagt að ein af bestu ákvörðunum sem við fjölskyldan höfum tekið var að flytja til Bolungarvíkur. Einfaldlega af því okkur líður vel í Bolungarvík.
Ég vil því nota tækifærið og þakka Bolvíkingum fyrir að láta mér líða eins og Bolvíkingi og gera mig þannig að Bolvíkingi, þótt reiknireglan segi að ég sé bara kominn uppí 8%.
Jón Páll Hreinsson
G
reinin birtist í Brimbrjótnum, blaði Bolvíkingafélagsins sem nýlega er komið út.