Hafró leigir Hákon EA-148 og Bjarni Ólafsson AK-070 til loðnuleitar

Í byrjun þriðju viku janúar mun RS. Árni Friðriksson halda til loðnuleitar og mælinga ásamt tveimur uppsjávarveiðiskipum. Óvissa hefur verið undanfarna daga með þátttöku veiðskipa í leitinni. Útgerðir uppsjávarskipa hafa komið að loðnuleit og mælingum á síðustu árum. Í ár stóð það einnig til. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) fyrir hönd útgerðanna hafa hins vegar óskað eftir því að greiðsla komi á móti útlögðum kostnaði.

Hafrannsóknastofnun hefur ótvírætt hlutverk að stunda stofnmælingar á loðnu líkt og á öðrum nytjastofnum og á grunni þeirra að veita stjórnvöldum ráðgjöf um veiðar úr þeim. Það var mat Hafrannsóknastofnunar að þörf væri á að fá tvö skip í tvær mælingar frá útgerðinni auk RS. Árna Friðrikssonar.

RS. Bjarni Sæmundsson er á leið í slipp með bilaða vél og er að auki óhentugur í loðnuleit vegna smæðar sinnar og þess utan er hann ekki með fellikjöl þannig að hann er fljótt sleginn út í bergmálsmælingum ef eitthvað er að veðri og sjólagi. Þann 8. janúar sl. náðist samkomulagi við SFS um að koma að leitinni á þeim forsendum að félagið legði til skip í samtals 30 daga, tvö skip í senn með það fyrir augum að ná tveimur góðum mælingum. Hafrannsóknastofnun stýrir leitinni og mælingum. Kostnaður útgerðanna sem af þessu hlýst er um 60 milljónir og leggur Hafrannsóknastofnun fram 30 milljónir. Ráðherra og ráðuneyti styðja þetta samkomulag.

DEILA