Það var hér á árunum þegar allt var í fári hér fyrir vestan eins og gerist oft. Rafmagnslaust, símalaust, mjólkurlaust, kaffilaust, brennivínslaust, tóbakslaust, ekkert víðvarp og almennt öryggisleysi dögum að ekki sé sagt vikum saman.
Þá bjuggu í Lokinhamradal í Auðkúluhreppi í Arnarfirði þau Sigríður Ragnarsdóttir á Hrafnabjörgum og Sigurjón G. Jónasson á Lokinhömrum, sérfræðingar í sauðfjárrækt. Þetta var fólk sem hafði á sér ákveðinn menningarbrag. Það vandaði málfar sitt og kunni framkomu. Samt höfðu þau aldrei gengið í annan skóla en skóla lífsins á vestfirskum útnesjum. Og í farskóla að vísu í nokkra mánuði. Oft menntaðasta fólkið sem kunnugt er. Það lifir með náttúrunni og umhverfinu. Setur sig aldrei á háan hest. Fylgist ótrúlega vel með öllu sem gerist. Margir hafa borið því vitni, að það sé á við margra ára háskólanám að kynnast þannig menntuðu fólki sem lítt eða aldrei hefur gengið hinn svokallaða menntaveg.
Það varð, að ekkert hafði heyrst úr Lokinhamradal uppundir hálfan mánuð. Þá var brugðið á það ráð að fá varðskip til að fara og athuga hvernig staðan væri þar í dalnum. Varðskipið lagðist fyrir framan. Nokkrir kappar fóru svo í land á gúmmíbát og gengu til bæja. Þá voru þau Sigurjón og Sigga bæði náttúrlega úti á hlaði, sitt hvoru megin við Lokinhamraána. Drengirnir okkar spurðu hvort það væri allt í lagi hjá þeim. Þau héldu það nú. Það var allt í góðu standi þar á bæjunum. Þau vanhagaði ekki um neitt. Nóg af öllu: Kaffi, sykur, uppkveikja, kol, gas, vasaljós, olíulugtir, batteríisútvarpið í lagi og nefndu það bara. Það var aðeins eitt sem angraði þau. Síminn var búinn að vera bilaður í hálfan mánuð. Báðu þau piltana að skila því til ráðamanna „að þeim þætti vænt um að gert yrði við símann.“ Annað var það ekki.
Hallgrímur Sveinsson