Voru kaupin á Gísla Jóns þess virði?

Gunnar Friðriksson og Gísli Jónss í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þessa spurningu hef ég fengið reglulega að undanförnu og í mínum huga er svarið skírt og einfalt. JÁ án nokkurs vafa.

Hagurinn af endurnýjun á Ísafirði.

Gunnar Friðriksson gekk 15 til 17 sjm en Gísli Jóns gengur 25 til 27 sjm. Tímasparnaður er því umtalsverður eins og sjá má í dæmunum hér að neðan. Einnig set ég inn hversu lengi Húnabjörg á Skagaströnd og Vörður á Patreksfirði væri að koma á móti okkur á valda staði en þeir eru sambærilegir og Gunnar Friðriksson.

Staður                  Gunnar Friðriksson / Gísli Jóns / Húnabjörg – Vörður.

Aðalvík                 1 klst 30 mín / 1 klst.

Fljótavík              2 klst / 1 klst 15 mín.

Hornvík                3 klst / 1 klst 50 mín.

Furufjörður         4 klst / 2 klst 25 mín / 4 klst.

Reykjafjörður     4 klst / 2 klst 30 mín / 3 klst 55 mín.

Ófeigsfjörður     5 klst 10 mín/ 3 klst 15 mín / 3 klst.

Göltur                  1 klst 20 mín / 50 mín.

Sauðanes            1 klst 30 mín / 1 klst.

Barði                    1 klst 55 mín / 1 klst 10 mín / 2 klst 20 mín.

Svalvogar            2 klst 30 mín / 1 klst 35 mín / 1 klst 40 mín.

Kópanes              3 klst / 1 klst 50 mín / 1 klst.

 

Fyrir utan þennan mikla tímasparnað erum við að fá mun betri aðbúnað fyrir áhöfn, öflugri búnað til dælinga og slökkvistarfa, mun betri búnað til dráttar og töluvert aukna toggetu eða úr um 3 tonnum á Gunnari Friðrikssyni í um 7,5 tonn Gísla Jóns.

Hver er þörfin?

Ég hef verið viðloðandi starfsemi björgunarskipa á Ísafirði síðan árið 1997. Komið hafa róleg ár og annasöm ár á þessum rúmu 20 árum. En rólegu árin geta verið mjög erfið og fjöldi útkalla hefur í raun ekkert með það að gera hversu mikilvæg vera skipana er á hverjum stað. Síðastliðin 5 ár hafa verið mjög sveiflukennd í útkallsfjölda hér á Ísafirði, árið 2014 voru 18 útköll, 2015 voru þau 16, 8 útköll árið 2016, 2017 voru útköllin 15 og fóru svo upp í 26 árið 2018. Um mitt ári 2019 var Gísli Jóns tekin í notkun en þá hafði Gunnar Friðriksson þegar farið í 13 útköll, síðan þá hefur Gísli Jóns varið í 20 útköll og eru útköllin á árinu 2019 því orðin 33 samkvæmt aðgerðargrunni SL.

En fjöldi útkalla segir ekki allt um þörfina á skipum SL. Ein af þeim ógnum sem við höfum miklar áhyggjur af eru skemmtiferðaskipin. Fyrr á árinu kom upp neyðarástand hjá skemmtiferðaskipi úti fyrir ströndum Noregs þar sem farþegar voru fluttir frá borði með þyrlum. Um sólarhring eftir að neyðarástandið skapaðist kom skipið til hafnar en þá hafði einungis tekist að ná um 400 farþegum af 1300 frá borði með þyrlunum 5 sem unnu að björguninni. Áætlað er að um 120 skemmtiferðaskip komi til Ísafjarðar á árinu 2020. Flest þeirra eru ýmist að koma frá Akureyri eða á leið þangað og fara því framhjá Hornströndum. Segjum að 1 skip með 2000 mans um borð farist og skipverjar komist allir í land í Hornvík. Þyrlur LHG geta hver um sig flutt 25 mans í hverri ferð og við ætlum bara að flytja farþeganna til Ísafjarðar. Ég myndi telja að það taki um 1 klst að ferma hverja þyrlu, fljúga til Ísafjarðar, afferma þar og fljúga aftur til Hornvíkur. Með 3 þyrlum gætum við því flutt um 75 mans á klst. Það þýðir að við þyrftum að fljúga stanslaust í um 27 klst til að koma öllum farþegunum til Ísafjarðar. Það er því nokkuð ljóst að við þurfum einnig að koma fólki sjóleiðina að og frá Hornvík því við þurfum einnig að koma töluverðu af björgunarliði á staðinn til að annast þá sem í skemmtiferðaskipinu voru.

Skip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar er vissulega í ágætu standi og eru mjög góð sjóskip. Þau eru hinsvegar hæggeng og búnaður þeirra kominn til ára sinna. Hönnun þeirra er þannig að breyta þyrfti þeim umtalsvert til að ná ganghraða þeirra upp í það sem við teljum nauðsynlegt og kostnaður við endurbyggingu og breytingar á þeim yrði svo mikill að það mun verða hagkvæmara að smíða ný skip.

LHG eru farnir að vinna í framtíðarplani varðandi skipaflota sinn. Hvernig sem þau munu líta út er ljóst að þörfin fyrir Slysavarnarfélagið Landsbjörg mun áfram vera til staðar. Aukin umferð skipa með mikinn farþegafjölda er komin til að vera. Stuttur viðbragðstími í sjóslysum er lykilatriði og því er þörfin fyrir öflug, gangmikil björgunarskip mjög mikil.

Undirritaður var formaður Björgunarbátasjóðs Vestfjarða frá 2012 til 2018.

J. Bæring Pálmason

DEILA