Flateyri byggðist upp í kringum sjósókn og vinnslu á síðustu áratugum 19. aldar. Saga útgerðar þar er saga útgerðar lítilla byggðalaga á Íslandi eða : sjálfsbjargarviðleitni, framsýni, bjartsýni, kraftur, samdráttur í sjávarútvegi og loks baráttan um síðasta brauðmolann.
Rúmlega 14 þúsund tonn er til ráðstöfunar í byggðakvóta, bæði sértækur sem Byggðastofnun úthlutar og almennur byggðakvóti. Úthlutunin er byggð á lögum um stjórn fiskveiða, en þar er kveðið á um að 5,3% af heildarafla í hverri fisktegund séu dregin af leyfilegum heildarafla og varið til ýmissa tímabundinna ráðstafana til þess að auka byggðafestu.
Sértæki byggðakvótinn er tæplega helmingur þessa kvóta og er honum úthlutað samkvæmt ákveðnum reglum en markmiðið er til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Byggðastofnun getur gert samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn.
Byggðastofnun auglýsti til umsóknar nú í ágúst 400 tonn af þessum gæðum til Flateyrar. Sem svo sannarlega hefur verið í bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Fjórar gildar umsóknir bárust og niðurstaðan er fengin, kvótinn fer til Suðureyrar.
Horft í baksýnisspegilinn
Sértæki byggðakvótinn fer til vinnslu á Suðureyri og verður gerður sex ára samningur við Íslandssögu hf. á þeim afla. Í staðin ætla fyrirtækin sem sóttu saman um kvótann að setja upp vinnslu á Flateyri og skaffa þar með önnur störf í plássinu. Fyrirhugað er að þar verði unnin sæbjúgu og vinnsla á gæludýrafóðri. Ég vona að það takist vel en staða sæbjúgnaveiða við landið gefur ekki ástæðu til bjartsýni.
Þrátt fyrir góðan hug um áform um störf á Flateyri þá vekur þessi ráðstöfun upp ákveðnar spurningar. Það er stór stefnubreyting að veita ekki útgerðaraðilum heimildirnar sem ætla að vinna þær á staðnum. Einnig getur þessi ráðstöfun haft alvarlegar afleiðingar fyrir þær útgerðir sem fyrir eru á Flateyri. Byggðastofnun hefur reglur til viðmiðunar við úthlutun kvótans og verða fyrirtækin að standast ákveðnar forsendur í sinni vinnu, voru metin raunveruleg áhrif þessarar úthlutunar á sjávarútveg á Flateyri? Hvaða áhrif hefur það á útgerð á staðnum næstu sex árin? Hvað með þau störf sem þegar eru fyrir hendi við útgerð á Flateyri? , löndun, fiskmarkað og umsýslu?
Björgin í byggðakvótanum
Staða lítilla sjávarplássa í landinu er viðkvæm. Litlar fiskvinnslur eiga sífellt erfiðara með að standast samkeppni við stærri vinnslur. Samþjöppun í sjávarútvegi hefur dregið kraftinn úr mörgum byggðalögum og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Því er erfitt að verða vitni að því að þeim úrræðum, sem þó eru fyrir hendi til að viðhalda því útgerðarformi sem vænlegast eru fyrir lítil byggðalög, sé ekki beitt þannig að það byggi undir þá starfsemi sem þeim var ætlað.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.