Sæll Aðalsteinn.
Í ljósi viðtals við þig í Speglinum á RÚV í gærkvöldi (19.12) vegna úthlutunar aflamarks Flateyrar til Suðureyrar finnst mér mikilvægt að eftirfarandi staðreyndir komi fram. Ég skrifa þetta bréf fyrir hönd þeirra fjögurra fyrirtækja sem eru með rekstur á Flateyri og sóttu umaflamark Byggðastofnunar. Fyrirtækin sem um ræðir eru Walvis ehf., eina fiskvinnslan á Flateyri og útgerðirnar Tjaldtangi ehf., Bjartmarz ehf. og Útgerðarfélagið Ískrókur ehf.
Í viðtali við RÚV sagðir þú orðrétt: „ Í þessu umsóknarferli þá reyndum við að virkja umsækjendur til samstarfs og meðal annars var kannað hvort kæmi til álita að skiptaaflamarkinu með einhverjum hætti. Því var einfaldlega hafnað alfarið af þeirra hálfu þannig að það gat ekki verið niðurstaðan og því þurfti að velja á milli.“
Það er rangt hjá þér að mögulegri skiptingu hafi verið hafnað. Snemma í ferlinu vantaði upp á samskipti við stofnunina, erfitt var að ná á lánasérfræðinga sem fjölluðu um málið og seint og illa kallað eftir upplýsingum. Samskipti okkur fóru því að mestu fram í tölvupósti þar sem ítrekað var að Walvis ehf., eina fiskvinnslan á Flateyri muni aldrei útiloka samstarf við aðila sem vinna að uppbyggingu á Flateyri.
Eftirfarandi tölvupóstar voru sendir á Byggðastofnun:
Þann 9. september 2019 var eftirfarandi póstur sendur Pétri Friðjónssyni, lánasérfræðingi: ,, Walvis ehf. er eina fiskvinnslan á Flateyri og þar af leiðandi mikilvæg til að vinna fisk af bátum sem nýta sér almennan byggðakvóta og hugsanlega aflamark Byggðastofnunar. Sú vinnsla verður alltaf að vera á forsendum Walvis ehf. til að nýta mannafla og framleiðslutæki á sem hagkvæmastan hátt. Walvis ehf. mun að sjálfsögðu alltaf skoða viðskipti við alla þá sem hafa hug á að landa fisk á Flateyri til vinnslu.”
Daginn eftir þann 10. september 2019 er þetta enn ítrekað í pósti til Péturs Friðjónssonar: „Þorgils rekur fiskvinnslu á Flateyri þar sem atvinnuástand hefur verið erfitt síðustu ár og hann er vakin og sofin yfir rekstri fiskvinnslu Walvis ehf.. Þorgils mun aldrei fyrir hönd Walvis ehf. útiloka viðskipti við aðila sem landa fiski á Flateyri.“ Í sama pósti er einnig nefnt að það sé „alltaf vilji Þorgils sem íbúa á Flateyri að efla atvinnuástand og eiga í farsælu samstarfi við þá sem landa fiski á Flateyri.“
Starfsmenn Byggðastofnunar, Pétur Friðjónsson og Pétur Grétarsson hittu okkur á fundi í fiskvinnslu Walvis ehf. þriðjudaginn 15. október 2019. Sá fundur gekk vel og nefndu þeir nafnar hvort til greina kæmi að skipta niður aflamarkinu af okkar hálfu og við útilokum ekkert slíkt en tiltókum fyrirvara um að semja þyrfti um samstarf og bentum á að við værum nú þegar búin að festa niður okkar samstarf og því yrði að skoða allt slíkt ef upp kæmi. Aldrei var nefnt hvaða fyrirtæki kæmu til greina, hvernig skiptingu yrði háttað, eða veittar upplýsingar um hvað lá að baki. Umræður þessar sem áttu sér stað á gólfi fiskvinnslunnar, voru almennar umræður, frekar en undirbúnar samningaviðræður.
Sem forstjóri Byggðastofnunar ættir þú að kynna þér málið betur og það sem mikilvægara er – að fara með rétt mál. Að lokum vil ég spyrja þig að því Aðalsteinn hvort þér finnist það eðlilegt að starfsmaður þinn, Pétur Grétarsson lánasérfræðingur Byggðastofnunar, sitji beggja vegna borðsins þegar kemur að því að meta umsóknir um byggðakvóta? Pétur situr í stjórn félagsins Hvetjanda sem er einn stærsti hluthafi í Íslandssögu sem fékk úthlutað öllu aflamarki stofnunarinnar.
Í Walvis Bay í Namibíu væri þetta kallað spilling!
Hildur Kristín Einarsdóttir stjórnarformaður Tjaldtanga ehf. og tengiliður umsóknaraðila.