Atburðir síðustu daga, þegar stórir hlutar landsins voru án rafmagns og fjarskipta, sýna að miklir veikleikar eru í mikilvægum öryggisinnviðum landsins og að stór hluti íbúa landsbyggðanna býr við mikið óöryggi hvað varðar flutning raforku og fjarskipti. Það er með öllu óásættanlegt og ógnar búsetuskilyrðum víða um land. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í ályktun fundar stjórnar Byggðastofnunar þann 17. desember.
Ályktun stjórnar Byggðastofnunar 17. desember 2019:
„Í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 er lýst þeirri framtíðarsýn að Ísland verði í fararbroddi með nútímainnviði, framsækna þjónustu, verðmætasköpun, jöfn lífsgæði og öflug sveitarfélög sem geti annast staðbundin verkefni og veitt íbúum hagkvæma og góða þjónustu með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Í öllum landshlutum verði blómlegar byggðir og öflugir byggðakjarnar þar sem stuðlað verði að bættum lífskjörum landsmanna með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu og atvinnutækifærum óháð efnahag og búsetu.
Öryggi í raforkuflutningum og fjarskiptum er ein grunnforsenda til að þessu markmiði verði náð og flutnings- og dreifikerfi raforku þarf að mæta þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu hvað varðar flutningsgetu og öryggi við afhendingu. Samhliða þarf fjarskipta- og samskiptamiðlun að vera tryggð um land allt. Atburðir síðustu daga, þegar stórir hlutar landsins voru án rafmagns og fjarskipta, sýna að miklir veikleikar eru í þessum öryggisinnviðum og að stór hluti íbúa landsbyggðanna býr við mikið óöryggi að þessu leyti. Það er með öllu óásættanlegt og ógnar búsetuskilyrðum víða um land.
Stjórn Byggðastofnunar hvetur ríkisstjórn Íslands, Alþingi, Landsnet og veitufyrirtæki til að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt og gera áætlun um úrbætur og viðbrögð til að skapa öryggi um þessa mikilvægu grunnþætti byggðar og búsetu.“