Í umsóknarferli aflamarks Byggðastofnunar á Flateyri þá sá Pétur Grétarsson, lánastjóri Byggðastofnunar, um að meta umsóknir allra umsóknaraðila. Hann situr í stjórn Hvetjanda sem er einn stærsti hluthafi Íslandssögu. Forstjóri Byggðastofnunar og yfirmaður Péturs er Aðalsteinn Þorsteinsson.
Aflamark Byggðastofnunar eru veglegir styrkir ríkisins til að viðhalda og efla atvinnulíf í afskekktum sjávarbyggðum landsins. Þær aflaheimildir sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar hafa verið teknar af öðrum hlutdeildarhöfum og gera verður miklar kröfur til faglegra vinnubragða við endurúthlutun þeirra. Eins og fjallað hefur verið um þá hefur stjórn Byggðastofnunar ákveðið að semja við Íslandssögu á Suðureyri og samstarfsaðila hennar um 400 tonna árlegt aflamark Flateyrar næstu sex fiskveiðiár. Walvis ehf., eina fiskvinnslan á Flateyri, er því sniðgengin um aflamark Byggðastofnunar á Flateyri og aflamarki, eyrnamerktu Flateyri, er úthlutað til fyrirtækis á Suðureyri sem heldur nú þegar á 500 tonna árlegu aflamarki Byggðastofnunar á Suðureyri. Alls mun Íslandssaga því hafa úr að spila 900 tonna árlegu aflamarki stofnunarinnar næstu sex árin eða alls 5.400 tonnum á tímabilinu.
Tap hefur verið á rekstri fiskvinnslu Íslandssögu á Suðureyri síðustu ár þrátt fyrir að félagið hafi haft afnotarétt af 500 tonna árlegu aflamarki Byggðastofnunar á Suðureyri. Eigið fé félagsins var neikvætt um 201 milljón í lok árs 2018. Í ársreikningi Íslandssögu fyrir árið 2018 kemur fram að verði ekki viðsnúningur í rekstri félagsins er ljóst að rekstrarhæfi félagsins er í vafa til framtíðar. Byggðastofnun er stór hluthafi í félaginu, í gegnum Hvetjanda eignarhaldsfélag, og því eru miklir fjárhagslegir hagsmunir hjá stofnuninni um að Íslandssaga fari ekki í þrot.
Stærstu hluthafar fiskvinnslunar Íslandssögu eru Norðureyri með 65% hlut og Hvetjandi eignarhaldsfélag með 19% hlut. Fyrir hönd Hvetjanda situr í stjórn Íslandssögu Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri í Bolungarvík.
Hvetjandi hf. eignarhaldsfélag var stofnað í janúar 2004 með 40% framlagi Byggðastofnunar og því næst kom Ísafjarðarbær með 20% hlut.
Í stjórn Hvetjanda sitja Jón Páll Hreinsson, formaður í umboði Byggðastofnunar og Ísafjarðarbæjar, Pétur Grétarsson lánastjóri Byggðastofnunar, Arna Lára Jónsdóttir bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ, Neil Shiran Þórisson, fjármálastjóri Arctic Fish og Marji Coluryt.
Eins og fyrr frá greinir þá sá Pétur Grétarsson, lánastjóri Byggðastofnunar og stjórnarmaður Hvetjanda, um að meta umsóknaraðila í umsóknarferli. Forstjóri Byggðastofnunar og yfirmaður Péturs er Aðalsteinn Þorsteinsson.
Með úthlutun 900 tonna árlegs aflamarks til eigin félaga í samkeppnisrekstri gengur stofnunin gegn eigin starfs- og siðareglum. Almenningur og viðskiptamenn Byggðastofnunar eiga heimtingu á því að störf Byggðastofnunar séu hafin yfir tortryggni. Þau skal vinna á faglegan hátt af vandvirkni og einkennast af sanngirni og óhlutdrægni.
Gunnar Torfason