Dýrafjarðargöng – Framvinda í vikum 49-50

Hér er samantekt af því helsta sem gerðist í vikum 49-50 við vinnu Dýrafjarðarganga.

 

Sem fyrr var unnið við uppsetningu á einangrunarklæðingu til vatnsvarna í göngunum ásamt því að haldið var áfram að sprautusteypa yfir klæðingarnar.

 

Uppsteypu á tæknirýmunum í göngunum var haldið áfram og á nú eingöngu eftir að steypa þakið á síðasta tæknirýminu. Einn af fimm tengibrunnum fyrir 132 kV jarðstreng Landsnets var steyptur og jarðvinna kláruð fyrir annan tengibrunn til viðbótar.

 

Nokkuð af efni var keyrt í veginn í göngunum. Byrjað var að grafa skurð fyrir ídráttarrörum sem eru fyrir stýristrengi og lágspennu í hægri vegöxl. Drenlagnir voru lagðar meðfram vegskálanum í Arnarfirði og lítillega fyllt að skálanum.

 

Lítillega var unnið í vegavinnu í Dýrafirði en vegavinnan þar mun nú að mestu fara í bið fram á næsta vor.

DEILA