Heimilt að fullnýta fisk og fiskeldisafurðir til lýsis og fiskimjöls framleiðslu

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað breytingu á reglugerð sem heimilar að nota megi allar fiskeldisafurðir og allan fisk við framleiðslu á fiskimjöli og lýsi sem ætlað er til manneldis, svo framarlega sem meðferð hráefnisins uppfylli kröfur um hollustuhætti og matvæli.
Hingað til hefur verið litið svo á að ekki sé heimilt að nýta vissa hluta og/eða hráefni fisk- og fiskeldisafurða til slíkrar framleiðslu en með þessari breytingu verður það nú heimilt. Þannig verður hægt að fullnýta þessar afurðir til framleiðslu fiskimjöls og lýsis og auka samkeppnishæfi íslenskra framleiðenda Sambærilegar reglur er að finna í Noregi um sambærilega framleiðslu.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„Sá mikli árangur sem náðst hefur við að fullnýta sjávarafurðir er einn helsti styrkleiki íslensks sjávarútvegs. Fyrir um 18 mánuðum bárust mér upplýsingar um að regluverkið hér á landi varðandi þessa framleiðslu væri af einhverjum ástæðum strangara en þekkist t.d. i Noregi. Þá setti ég af stað vinnu innan ráðuneytisins og afrakstur hennar liggur nú fyrir með þessari breytingu. Þessi breyting er því sérstaklega ánægjuleg enda mun hún gera íslenskum fyrirtækjum kleift að fullnýta þessar afurðir.“

DEILA