Þessa dagana er kveikt á jólatrjám víða um land og eru trén víðast hvar á vegum sveitarfélaganna. Svo er þó ekki á Hólmavík eins og Jón Jónsson á Kirkjubóli segir frá:
Fjöldi fólks var viðstaddur þann 29 nóvember, þegar ljósin á jólatrénu við Hafnarbrautina á Hólmavík voru kveikt. Tréð framan við húsið hjá Svanhildi og Nonna Villa er orðið eins konar þorpsjólatré. Boðið var upp á piparkökur og heitt súkkulaði.
Svana sagði frá grenitrénu sem hefur stækkað ógurlega síðustu árin og heldur mjög fallegri lögun fyrir jólatré. Í því eru nú 360 ljós, en það er ekkert mjög mörg ár síðan tréð náði rétt upp fyrir þakkantinn á húsinu og þótti þá strax býsna fallegt. Dagrún Ósk þjóðfræðingur sagði frá jólasveinum fyrr á öldum og svo sungu viðstaddir smávegis saman áður en ljósin birtust eftir niðurtalningu viðstaddra! Frábært veður og mjög skemmtilegt að hittast aðeins og spjalla.
Svo var jólahlaðborð á Café Riis í gærkveldi, fullt hús og kræsingar á heimsmælikvarða. Þó verður enn fjölmennara í kvöld og á sunnudaginn fjölmennir Félag eldri borgara á Ströndum síðan á jólahlaðborðið hjá Riis.