Mánudaginn 11. nóvember var haldinn sameiginlegur starfsdagur skólanna á sunnanverðum Vestfjörðum. Markmiðið með þessu framtaki er að auka samstarf milli skólanna og nýta þannig alla þá þekkingu sem býr í mannauði skólastarfsins á svæðinu. Það er mjög mikilvægt í starfsþróun starfsmanna að fá tækifæri til þess að bæði deila eigin þekkingu sem og læra af öðrum. Samtals voru um 60 manns sem voru saman komnir á starfsdeginum.
Skipulag starfsdagsins var með því sniði að fyrir hádegi sátu allir starfsmenn fjögurra tíma námskeið á vegum Barnaheill sem ber nafnið Verndarar barna. Þar fengu allir starfsmenn þjálfun í forvörnum gegn kynferðisofbeldi á börnum. Í hádeginu borðuðu allir saman dýrindis mat á Hópinu og eftir hádegi tók Tálknafjarðaskóli við þar sem skólastjóri byrjaði á að kynna skólann og starfsemi hans. Þá tók við skoðunarferð um skólann þar sem skipt var í hópa og síðan var boðið upp á fjórar málstofur þar sem starfsmenn Tálknafjarðarskóla deildu þekkingu sinni í: 1. Útikennsla, yoga og núvitund, 2. Lifandi Leikskólastarf, 3. Tækni í skólastarfi og 4. Skógræktin og skólastarfið, gönguferð. Í lokin buðu starfsmenn skólans upp á veitingar og þar gafst tími til að ræða saman um skólastarfið og kynnast betur.
Um kvöldið var einnig var boðið upp á fyrirlestur frá Barnaheill um sama efni fyrir foreldra og fór það fram í Patreksskóla en skólastjóri streymdi fyrirlestrinum á facebooksíðu skólans þar sem enn er hægt að nálgast efnið. Daginn eftir fengu unglingar skólans lífsleiknikennslu um efnið. Flott og nauðsynleg fræðsla fyrir alla.
Birna Friðbjört S. Hannesdóttir, skólastjóri Tálknafjarðarskóla segir að „við í Tálknafjarðarskóla erum mjög ánægð með vel sóttan og vel lukkaðan starfsdag. Það var virkilega gaman að fá fólk í heimsókn, sýna flotta skólann okkar og það starf sem við erum að vinna hér. Við þökkum Bíldudalsskóla, Patreksskóla og Leikskólanum Arakletti fyrir komuna. Við þökkum fyrir góðan mat og viðtökur á Hópinu og einnig þökkum við Sigríði og Lindu frá Barnaheill fyrir vel heppnað námskeið.“