Af ákveðinni ástæðu …

Björn Davíðsson

Sl. föstudag fór fram á Ísafirði málþing í tilefni þess að nú er lokið lagningu ljósleiðara um Ísafjarðardjúp ásamt því að á verulegum hluta leiðarinnar var jafnframt lagður nýr jarðstrengur Orkubúsins sem eykur verulega afhendingaröryggi rafmagns í Djúpinu og býður upp á þrífösun sem skiptir ábúendur mjög miklu máli. Reiknað er með að tengivinnu við ljósleiðarann verði lokið fyrir áramót og næst þá langþráður áfangi með hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum með því aukna afhendingaröryggi sem slíku fylgir.

Á málþinginu kom fram í máli Jóns Ríkharðs Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Mílu, að Míla telur að rekstraraðilar í fjarskiptastarfsemi þurfi og eigi að viðhafa meira samstarf en verið hefur hingað til. Því ber að fagna en Snerpa hefur frá fyrsta degi ávallt leitað eftir slíku samstarfi. Það verður þó að segjast eins og er að því frumkvæði, sem Snerpa hefur tekið, hefur verið fálega tekið af Símanum og Mílu. Við höfum hins vegar átt mjög gott samstarf við Orkubú Vestfjarða sem hefur orðið til þess að mun meira hefur verið framkvæmt í ljósleiðaramálum á Vestfjörðum en ella. Þannig hefur OV t.d. tekið þá ákvörðun að alls staðar þar sem rafstrengur er grafinn í jörð, er lagt með rör fyrir ljósleiðara og einnig hefur verið hægt að koma fyrir rörum eða strengjum samhliða framkvæmdum við hitaveitu.

Ég tók eftir því í máli Jóns að hann hafði á orði að ,,af ákveðinni ástæðu er Ljósnetið lélegra á Ísafirði en annars staðar.“ Án þess að tími gæfist til að fara nánar út í þá sálma. Þar sem ég þekki vel til um þessa ,,ástæðu“, vil ég gera grein fyrir henni og hvað hún felur í sér. Ástæðan er sú að vegna þeirrar stefnu Snerpu að fjárfesta í fjarskiptainnviðum, hefur Míla tekið ákvarðanir í kjölfarið sem einmitt ekki hafa verið í samstarfi við Snerpu. Það hefur leitt af sér verri þjónustu fyrir hluta af notendum á Ljósnetinu.

Ljósnetið og Smartnetið

Þegar VDSL-tæknin tók við af ADSL fékk hún nafnið Ljósnet hjá Símanum en þar sem um skrásett vörumerki var að ræða var ekki annað í boði en að Snerpa tæki upp sitt eigið vörumerki fyrir sömu þjónustu og var valið nafnið Smartnet. Síðar tók Míla upp nafnið Ljósveita um sömu þjónustu á aðgangskerfi sínu eftir að Samkeppniseftirlitið fyrirskipaði árið 2013 að rekstur Ljósnetsins yrði fluttur frá Símanum til Mílu.

VDSL var í boði hjá Snerpu frá árinu 2009 í neðri bænum á Ísafirði. Vorið 2011 ákvað Snerpa að taka svo af skarið því að ADSL-tengingar þær sem Síminn bauð íbúum í þéttbýli á Vestfjörðum höfðu ekki verið uppfærðar í VDSL. Gerð var áætlun um að setja upp Smartnet einnig á þéttbýlisstöðum utan Ísafjarðar þar sem þjónustan var lélegust og setti Snerpa í framhaldinu upp Smartnet á Þingeyri, Flateyri og á Suðureyri og Bíldudalur bættist svo við um haustið eftir að Vesturbyggð óskaði eftir aðstoð Snerpu við að bæta úr þjónustu þar. Réði þar mestu að þörf grunnskólanna á þessum stöðum var meiri en þjónustuframboð Mílu bauð upp á.

Biðin eftir betra sambandi

Árið 2009 starfrækti Síminn einungis ADSL-þjónustu á Vestfjörðum, þar með talið Ísafirði. Um ADSL-þjónustuna voru í boði allt að 15 sjónvarpsrásir, sem Síminn nefndi Topp en á höfuðborgarsvæðinu og víðar höfðu þá verið í nokkurn tíma í boði um eða yfir 60 rásir. Snerpa bauð Símanum strax árið 2009 þegar búnaður var settur upp í símstöðinni á Ísafirði að veita sjónvarpsþjónustu á Smartnetinu með fullu úrvali sem var mögulegt um VDSL en Síminn afþakkaði. Snerpa bauð einnig Vodafone aðgang undir sjónvarpsþjónustu sína sem var tekið og voru þá í boði yfir 60 sjónvarpsrásir á Smartnetinu, bæði á Ísafirði og í þorpunum í kring.

Þegar Síminn kynnti til sögunnar Ljósnet á Ísafirði á árinu 2013 náði það einungis til þess svæðis sem Snerpa bauð þá þegar Smartnet á. Fljótlega eftir það uppfærði Síminn svo búnað sinn á þeim stöðum sem Smartnet var í boði einnig í Ljósnet. Aðrir staðir, eins og Patreksfjörður, Bolungarvík, Súðavík og Hólmavík sátu þó eftir um tíma og enn lengur biðu Holtahverfið, Hnífsdalur og efri bærinn á Ísafirði. Þá virtist sem Síminn legði einungis áherslur á Ljósnetið þar sem Snerpa hafði boðið Smartnetið. Snerpa bætti þá í og setti upp Smartnet í Hnífsdal. Síminn kom einnig þar með Ljósnet en aðhafðist ekki frekar.

Framkvæmdir Snerpu

Vegna aðgerðaleysis Símans ákvað Snerpa að fara í frekari uppbyggingu og vorið 2013 var haldinn sérstakur fundur með Símanum þar sem áform Snerpu voru kynnt, sérstaklega að til stæði að setja upp Smartnet í efri bænum á Ísafirði með því að setja upp búnað við götuskáp efst í Bæjarbrekkunni en þessi skápur þjónaði heimtaugum í mestöllum efri bænum. Einnig voru kynnt áform um að bjóða Smartnet í Holtahverfinu og var Símanum jafnframt boðið samstarf um framkvæmdirnar þannig að ekki yrði um tvífjárfestingu að ræða ef Síminn kæmi strax á eftir með Ljósnetið eins og hafði áður gerst. Þá var Símanum aftur boðinn aðgangur að dreifingu sjónvarpsþjónustu. Einnig var sérstaklega farið yfir samkeppnisaðstæður og hvernig yrði tryggt jafnræði milli fjarskiptafélaga en í boði var að og er enn að Smartnetið væri sk. opið net sem öllum fjarskiptafyrirtæki geta selt þjónustu sína á. Enn sem komið er hefur þó einungis Vodafone nýtt sér það. Árangurinn af þessum fundi var enginn og Síminn afþakkaði allt samstarf.

Míla tekur við Ljósnetinu

Árið 2013 var svo rekstur Ljósnetsins fluttur til Mílu sem var hluti af sátt Símans við Samkeppniseftirlitið þar sem fram kom að Síminn hafði að mati þess framið mjög viðamikil brot gagnvart samkeppnisaðilum og sektaði Símann jafnframt um 300 milljónir króna fyrir þau brot. Rétt er að geta þess að yfirmaður reksturs á Ljósnetinu, fluttist með því yfir til Mílu og hafði hann setið umræddan fund og var því fullkunnugt um áform Snerpu.

Snerpa ákvað að fara í framkvæmdirnar í efri bænum á Ísafirði sumarið 2013 og í Holtahverfinu árið 2014. Framkvæmdir í Holtahverfinu hófust með því að í ágúst 2014 var settur upp búnaður í símstöðinni í Holtahverfi og pantaður ljósleiðari frá Mílu að Vegagerðinni á Dagverðardal og síðan lagði Snerpa ljósleiðara frá Vegagerðinni niður í hverfið en enginn ljósleiðari var tiltækur hjá Mílu. Svo virðist sem Míla hafi þá tekið þá ákvörðun að fara í snatri í Ljósnetsvæðingu í Holtahverfinu auk þess sem vísvitandi var reynt að tefja fyrir framkvæmdum Snerpu m.a. með því að láta að því liggja að koparstrengur sem Snerpa hafði leitað eftir kaupum á hjá Mílu væri til, en afhendingu frestað og svo að lokum hafnað. Varð Snerpa þá að verða sér úti um efni eftir öðrum leiðum en sem betur fer tókst það. Leiknum var þó ekki lokið, heldur hafnaði Míla því einnig að Snerpa fengi að nota heimtaugar Mílu í hverfinu, nokkuð sem kvöð er á Mílu um að veita. Bar Míla því við að þeir þyrftu sjálfir að nota heimtaugarnar undir Ljósnetið og neyddist Snerpa til að leita liðsinnis hjá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) sem er eftirlitsaðili með því að þessum og öðrum leikreglum sé fylgt.

Kærumál um koparheimtaugar

PFS tók sér frá september fram í desember árið 2014 að leysa úr kvörtun Snerpu, en á meðan lagði Snerpa eigin strengi í fjölbýlishúsin í Stórholti og hóf að veita þjónustuna á einum götuskáp sem Míla neyddist til að veita aðgang að. Á tímabilinu setti Míla svo upp tvo götuskápa til viðbótar í hverfinu. Þegar úrskurður PFS var gefinn út í desember 2014 kom í ljós að Mílu bar ,,að tilkynna um framkvæmdir sínar við VDSL væðingu umrædds hverfis með a.m.k. 6 mánaða fyrirvara og veita Snerpu í upphafi allar nauðsynlegar upplýsingar sem félagið hefði þurft vegna VDSL uppbyggingar sinnar á heimtaugum Mílu í hverfinu.“ Einnig kom fram í úrskurðinum að: ,,Míla braut gegn jafnræðiskvöð þeirri sem á félaginu hvílir á heimtaugamarkaði […]“. Þá kvað PFS á um að Mílu væri óheimilt að hefja VDSL þjónustu í hverfinu. Það skyldi einnig gilda um VDSL væðingu Mílu í efri bænum á Ísafirði því þar hafði Míla einnig unnið á sama hátt. Þá lagði PFS Mílu þá skyldu á herðar, bæði í Holtahverfi og í efri bænum á Ísafirði að Mílu væri ,,óheimilt að hefja veitingu VDSL þjónustu sinnar í umræddu hverfi, sem og öðrum hverfum sem háttar til með hliðstæðum hætti, fyrr en Snerpa og önnur áhugasöm fjarskiptafyrirtæki hafa fengið fullnægjandi sýndaraðgang (VULA) […]

Fljótlega kom í ljós að Míla hafði flutt tengingar frá símstöðinni í Holtahverfi í götuskápa á tímabilinu fram í desember 2014. Taldi Snerpa að þetta væri með vitund PFS en þegar í ljós kom að svo var ekki efndi Snerpa til annars kærumáls til að fá úr því skorið enda hafði Míla ekki boðið Snerpu umræddan sýndaraðgang að heimtaugum (VULA). PFS úrskurðaði síðan að þar sem tengingarnar höfðu átt sér stað áður en úrskurðurinn féll og þar sem PFS var ekki kunnugt um þær fyrr en eftir á, að þá hefði Míla verið í rétti til að framkvæma þær.

VULA

VULA er úrræði sem Míla getur boðið aðilum eins og Snerpu, sem vilja nýta heimtaugar Mílu en Míla vill af tæknilegum ástæðum ekki veita beina tengingu við heimtaug. VULA átti Míla að hafa í boði í síðasta lagi 13. nóvember 2014, tæpum mánuði áður en ofangreindur úrskurður féll. Mílu tókst hinsvegar ekki að standa við það og ennþá er VULA ekki í boði. Það er ástæðan fyrir því að ,,Ljósnetið er lélegra á Ísafirði en annars staðar“. Mílu er óheimilt að hefja frekari veitingu á þjónustunni í þessum tveimur hverfum þar til VULA er í boði. Snerpa getur hins vegar boðið Smartnet mun víðar þar sem þessar kvaðir hvíldu ekki á Snerpu. Snerpa hefur ítrekað sent bæði Mílu og PFS athugasemdir og tillögur að skilmálum en því miður er ekki séð fyrir endann á því ennþá. Vonir standa til þess að þeirri vinnu ljúki í febrúar skv. upplýsingum frá PFS.

Ljósleiðarinn

Dæmin sem nefnd eru að ofan eru ekki eini ásteytingarsteinninn í tilraunum Snerpu til að eiga samstarf við Mílu um uppbyggingu á þjónustu. Fyrir utan hús næst símstöðinni í Bolungarvík virtist vera að Míla hafði ekki áhuga á Ljósnetsvæðingu nema þar sem Snerpa var búin að vera á undan. Snerpa pantaði ljósleiðara í Súðavík 11. maí sl. með það að markmiði að opna Smartnetið þar. Þann 2. júní tilkynnti Míla að til stæði að uppfæra ADSL í Súðavík upp í Ljósnet. Við töldum þetta ekki vera tilviljun og drógum pöntunina til baka. Míla lauk þó við tilkynnta uppfærslu og nú er Ljósnet í boði í Súðavík. Snerpa í samstarfi við Vodafone athugaði í sumar möguleika á að nýta ljósleiðara í Bolungarvík til að bjóða Smartnet þar. Míla svaraði því til að ljósleiðari væri ekki í boði þangað. Að undangengnum ýmsum athugunum á valkostum þar ákvað Snerpa í haust að leggja nýjan ljósleiðara inn í bæinn, um 1,5 km sem á vantaði til að veita betri þjónustu og er reiknað með að hann verði kominn í gagnið fyrir jól. Míla tilkynnti 15. nóvember sl. um framkvæmdir í Bolungarvík sem miða að því að efri hluti bæjarins fái Ljósnetsþjónustu ekki síðar en 15. febrúar 2017. Tilviljun? Í öllu falli er hægt að fagna öllu því sem miðar að bættri fjarskiptaþjónustu á Vestfjörðum. Það er sama hvaðan gott kemur er það ekki?

Villandi svör frá Símanum

Eftir þessa reynslu af samstarfi við Mílu um koparheimtauganetið og Ljósnetið hefur Snerpa ákveðið að frekari uppbygging í Smartnetinu verði með þeim hætti að ljósleiðari verði í boði beint til heimila. Þar sem fjárfestingagetan er takmörkuð hefur ekki mikið borið á þessu en má þó nefna að í sumar tengdum við yfir 30 ný heimili í Stakkaneshverfinu við ljósleiðara en það hefur verið afskipt og verið með lélegra samband á Internetið en margir aðrir vegna línulengdar frá símstöð. Eru nú yfir 100 heimili í heildina sem eiga kost á ljósleiðaratengingu Snerpu á Ísafirði án þess þó að allt sé upp talið.

Símanum var, strax í mars 2013 boðinn aðgangur að Smartnetinu. Slíku hefði fylgt að Símanum hefði boðist að veita sjónvarpsþjónustu sína um Smartnetið. Rétt er að geta þess að skv. 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga er Símanum sem fjölmiðlaveitu beinlínis óheimilt að beina viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki en Síminn er móðurfélag Mílu. Síminn hefði því átt að fagna þessari ákvörðun Snerpu um að opinn aðgangur væri að Smartnetinu og þar með möguleiki að sýna fram á að viðskiptavinum Sjónvarps Símans væri ekki beint eingöngu til Mílu. Snerpa gæti í samræmi við 47. gr. sömu laga krafist þess að Síminn bjóði sjónvarpsþjónustu á Smartnetinu en hefur ekki talið farsælt að þvinga aðila í viðskipti og því látið kyrrt liggja.

Undanfarið hafa þeir sem hafa áhuga á að tengjast á ljósleiðara Snerpu en vilja notast áfram við Sjónvarp Símans haft samband við Símann til að forvitnast um hvenær slíkt verði mögulegt. Okkur hafa borist spurnir af því að svör þar um hafi verið mjög villandi og beinlínis ósannindi. Allt frá því að Snerpa meini Símanum að bjóða þjónustu á ljósleiðaranum upp í að viðkomandi þurfi ekkert betra samband miðað við mælingar á ADSL tengingu viðkomandi sem sé bara fín. Einnig hafa komið þær skýringar að Snerpa sé að skemma fyrir uppbyggingu á Ljósnetinu með því að banna Mílu að taka í notkun götuskápa sem hafi verið tilbúnir í tvö ár. Eins og lesa má úr langri sögu hér að ofan er slíkt fjarri öllum sannleika.

Undanfarið hefur líka komið fram að Ljósnet og ljósleiðari eru ekki það sama. Ég læt staðar numið hér en það bíður síðari tíma að gera athugasemdir um villandi framsetningu Símans um Ljósnetið.

Ég vil í lokin biðjast velvirðingar á því að Snerpa hefur ekki verið nægilega iðin við að koma upplýsingum um þetta mál til almennings. Það er því miður flókið og ekki gott að gera grein fyrir því í stuttu máli.

f.h. Snerpu ehf.

Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri.

DEILA