Þótt Íslendingar flytji mikið út af sjávarafurðum eru einnig fluttar inn sjávarafurðir. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands nam þessi innflutningur á síðasta ári rúmlega 120 þúsund tonnum. Munar þar mest um löndun erlendra fiskiskipa á Íslandi. Þannig telst innflutningur loðnu tæp 70 þúsund tonn og af kolmunna 38 þúsund tonn. Tæp 2 þúsund tonn voru flutt inn af þorski og rúmlega 3 þúsund tonn af makríl. Af rækju voru flutt inn rúmlega 15 þúsund tonn.
Að sögn Alberts Haraldssonar framkvæmdastjóra Kampa á Ísafirði kom tæpur þriðjungur eða um 4,5 þúsund tonn til vinnslu þar en samtals tók Kampi á móti um 6 þúsund tonnum af rækju á síðasta ári.