Orkusjóður hefur úthlutað styrkjum að upphæð 227 milljónum króna til uppsetningar 43 nýrra hraðhleðslustöðva vítt og breitt um landið. Nýju stöðvarnar eru þrisvar sinnum aflmeiri en öflugustu stöðvarnar sem fyrir eru hérlendis og eiga að stuðla að hindrunarlausum ferðum rafbíla milli landshluta.
Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og uppbyggingu innviða vegna orkuskipta í samgöngum. Stöðvarnar tilheyra nýrri kynslóð hraðhleðslustöðva en um er að ræða 150kW hleðslustöðvar. Öflugustu stöðvarnar hafa hingað til verið 50kW og flestar eru 22kW.
Gert er ráð fyrir a.m.k. helmings mótframlagi framkvæmdaaðila og nemur heildarfjárfesting verkefnanna því 450 milljónum króna hið minnsta.
Staðsetningar 150kW hraðhleðslustöðvanna sem eru mun öflugri en fyrri stöðvar, eins og áður sagði, eru á eftirfarandi stöðum á Vestfjörðum: Bjarkarlundi, Patreksfirði, Ísafirði og Hólmavík. Auk þess er m.a um að ræða stöðvar í Búðardal og Staðarskála.