Það er búið að vera mikið um að vera í gamla verslunarhúsinu í Hæstakaupstað á Ísafirði er þeir Hamraborgarbræður Úlfur Þór og Gísli Elís Úlfarssynir, sem nú eiga húsið, hafa ásamt vöskum iðnaðarmönnum umbreytt rýminu á jarðhæðinni í íbúð. Það eitt og sér er kannski ekki í frásögur færandi, nema að haldið er í heiðri hluta þeirrar starfsemi sem verið hefur í húsinu fram til þessa.
Í síðustu viku var þar að störfum Örn Smári Gíslason hjá Fánasmiðjunni á Ísafirði við að setja á einn vegginn risastóra útprentaða ljósmynd sem tekin var í kringum aldamótin 1900, á dögum verslunar stórkaupmannsins Leonhards Tang sem tók við Hæstakaupstaðarverslun árið 1890 af Hans. A Clausen. Verslun Tangs var öflug og var hann einnig bæði útgerðarmaður og frumkvöðull, en um tíma framleiddi hann bæði gosdrykki og sælgæti á Ísafirði. Árið 1918 seldi Tang verslunina, en hún hélt áfram í svipaðri mynd næsta áratuginn. Er Nathan & Olsen hættu verslun árið 1928 lagðist Hæstakaupstaðarverslun af sem slík.
Fleiri hafa komið við sögu þessa fallega húss sem byggt var árið 1873. Meðal þeirra sem höfðu aðsetur í þeim enda hússins sem nú er verið að vinna í, er smiðurinn Kristinn Leví Jónsson sem rak þar verkstæði frá 1958, fyrst í samstarfi við félaga sinn Sigurð H. Bjarnason, en eftir andlát hans árið 1985 var Kristinn þar einn og fékkst hann aðallega við líkkistusmíði og einnig gerði hann upp gömul húsgögn. Enn má oft heyra í daglegu tali fólks vísað til hússins sem líkkistusmiðjunnar, en Kristinn var með rekstur sinn þar allt til ársins 2002, er líkamleg heilsa leyfði ekki meir. Kristinn og verkstæðið hans fá einnig sinn sess í íbúðinni þar sem gerður hefur verið útstillingargluggi sem hefur að geyma verkfæri Kristins, vinnusvuntu, líkkistunagla, ljósmyndir og ýmsa smámuni.
Húsið, sem stendur við Austurvöll, var komið í mikla niðurníðslu en hefur undanfarin ár smátt og smátt verið að snúa til fyrri glæsileika og eru nú í því tvær íbúðir á jarðhæð og hefur ytra byrði hússins verið tekið í gegn, en efri hæðirnar tvær bíða þess að ganga í endurnýjun lífdaga.