Vestfirska vísnahornið október 2019

Skjaldfannardalur.

Fagrir haustdagar líða hver af öðrum hér á Vestfjörðum. Georg Jón Jónsson, bóndi á Kjörseyri við Hrútafjörð var góður hagyrðingur og hann orti eitt sinn um haustlitina:

 

Í hægviðri ríkir haust yfir landi

Með heillandi liti á grasi  og runnum.

Þó gráni í fjöllin fagnar vor andi

Fegurð þess lands sem vér unnum.

 

En það rignir inn á milli góðviðrisins eða kannski er rigningin bara hluti af fögru haustveðri. Óla Friðmey Kjartansdóttir bóndi á Þórustöðum í Bitrufirði setti á skjáinn í rigningu í síðustu viku.

Nú feikjast laufin
af fõgru õspinni minni
og fellur regn , færandi vetrarspá
Þrõsturinn horfinn
farinn til fegurri stranda
framundan einungis kalsi..hretviðrin grá…

 

Bæti hér við einni náttúrulífsvísu, sem gæti sem best verið haustvísa,  eftir Þingeyringinn Kristjönu Sigríðu Vagnsdóttur:

Skelfur jörðin skopast sær
skýin , hranna loftin blá.
Strýkur hlíðar blíður blær
blundar selur hleinum á.

 

Jón Atli Játvarsson, Reykhólum og Indriði Aðalsteinsson, Skjaldfönn eru á öndverðum meiði um Hvalárvirkjun. Jón Atli er stuðningsmaður en Indriði andstæðingur.

Svona orti Jón Atli um daginn með þessum orðum:

Illa gengur sumum mönnum að sjá þörf fyrir rafmagn og línulagnir á Vestfjörðum. Þetta gengur líka í tilfellum alla leið yfir á vegalagnir.

Vegur upp á heiði hefur
heldur tafist út af kærum.
Næsta vor ef guð þá gefur
gnægð af nýjum tækifærum.

 

Indriði sendi fyrir nokkru  Vesturverki tóninn  eftir að forstjórinn hætti og hafði yfirskriftina :

Verstaverksstjóri rekinn.

Ásgeir fyrir borðið byltist
-baukaði sér til vans.
Til Ófeigsfjarðar aulinn villtist
-enginn saknar hans.

 

 

Þeir tókust á um daginn og voru ekki af skafa utan af hlutunum.

Indriði hóf leikinn:

Áfram hnoðar Atli Jón.

Ekki er það fögur sjón.

Leirburður í heila hans

hefur ekki nokkurn stans.

 

Jón Atli svaraði um hæl:

Finn ég svarið, fussum svei
flýtur rolla í ánni.
Á í stæðu hrakið hey
og húsamýs í ljánni.

 

Indriði bætti frekar í:

 

Af Atla Jóni orð það fer

sem er nú mjög að vonum

að slæmum málstað alltaf er

öflugt lið í honum.

 

 

Jón Atli lét ekki eiga inni hjá sér:

 

Heyið nú á garðann gef
og glundra yfir lýsi.
Sjálfrunnu af rosknum ref
sem reyndist batinn vísi.

 

Rimmunni lauk með því að  Óla Friðmey skarst í leikinn:

 

Áfram semur Atli Jón
enda mun það fõgur sjón.
Leifturskot í huga hans
hafa náð til , sérhvers manns.

 

Víkjum nú að heimsmálunum. Vestfirskir hagyrðingar fylgjast með þeim rétt eins og aðrir heimsborgarar.  Indriði yrkir um Bandaríkin.

Bandaríkja djúpt er díki.
Djöflast karl þar enn.
Vont er þegar voldug ríki
velja svona menn.

 

Jón Atli Játvarðsson sendir NATO smásneið vegna árásar Tyrkja á Kúrda í Sýrlandi og hefur í huga að Ítalir eru á Íslandi um þessar mundir að sinna loftrýmisgæslu fyrir NATO:

NATO ber að sögn glöggra manna enga ábyrgð á að Erdogan lætur sprengjum rigna yfir Kúrdahéruðin og fylgir eftir með landher. Það er því ekki ónýtt að hafa Ítalina hérna til að praktisera árásaraðferðir flugvéla sem Tyrkir geta fengið í gagnabanka sinn eftir leiðum aðildarinnar að NATO. Hérna á Reykhólum heyrist vel í æfingatækjum þessum í gegnum storminn og steinveggi húsanna, þennan morguninn.

Ímynd um frelsi ég öfluga tel
engar þar gerum við skyssur.
Ítalir láta þeim líða nú vel
sem leggja allt traustið á byssur.

Árásarstefnan nú alþýðu dýr
ef þú ert sáttur, þá liggðu.
Fylgendur NATO mjög góðum í gír
ganga að öryggi tryggðu.

 

Sláum botninn í vísnaþáttinn með framangreindum friðarvilja vestfirsku hagyrðinganna.

Kristinn H. Gunnarsson

 

 

DEILA