Á hverju hausti býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrár undir nafninu Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Dagskrárnar í Skáld í skólum eru metnaðarfullar og fræðandi, höfundar koma í heimsókn til að tala um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði.
Haustið 2019 fara sex skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ í ævintýraleiðangur með nemendum og kennurum um undraheima bókmennta, þau gera tilraunir til að búa til vísindatrylli, uppgötva leynistaði þar sem maður getur verið maður sjálfur og þefa uppi kynngimagnaðar bækur sem geta breytt heiminum til hins betra.
Skáld í skólum er á sínu 14. starfsári og hefur fyrir löngu sannað sig sem ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins, en hátt í 70 mismunandi dagskár hafa orðið til innan vébanda verkefnisins frá því það hóf fyrst göngu sína 2006.
Í þessari viku komu þau Linda Ólafsdóttir og Vilhelm Anton Jónsson í heimsókn í 1. – 4. bekk Grunnskólans á Ísafirði með sinn hluta af dagskránni. Linda er teiknari og barnabókahöfundur og hefur myndskreytt fjölda bóka, m.a. Íslandsbók barnanna, Móa hrekkjusvín, Dúkku og sitt eigið höfundaverk, LEIKA?. Fyrir verk sín hefur Linda hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna og má þar nefna tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunin og Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Fyrir Íslandsbók barnanna fékk Linda heiðurssæti á lista IBBY 2018. Vilhelm Anton Jónsson er söngvari og tónlistarmaður, kvikmyndaleikari og þáttastjórnandi í útvarpi og sjónvarpi og þar að auki barnabókahöfundur. Árið 2013 sendi hann frá sér fyrstu Vísindabók Villa og nú sex árum síðar eru hinar vinsælu vísindabækur orðnar fimm talsins, þ.á m. Vísindabók Villa: truflaðar tilraunir og Vísindabók Villa: geimurinn og geimferðir sem hann skrifaði með Sævari Helga Bragasyni.