Landssöfnun björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Neyðarkall björgunarsveitanna, hefst í dag og stendur yfir til 3. nóvember. Næstu daga mun björgunarsveitafólk standa vaktina á fjölförnum stöðum og ganga í hús og selja Neyðarkallinn, sem í ár er björgunarsveitarmaður með dróna.
Hagnaður af sölu Neyðarkallsins rennur beint til björgunarsveita og verður notaður til að efla búnað og styrkja þjálfun björgunarsveitarmanna landsins, en rekstur björgunarsveitanna er dýr þrátt fyrir að allir björgunarsveitamenn séu sjálfboðaliðar.
Við vonum að landsmenn taki meðlimum björgunarsveitanna opnum örmum og styðji þannig við bakið á fórnfúsu starfi þeirra þúsunda björgunarsveitarmanna sem eru til taks allan ársins hring þegar samborgarar þeirra þurfa á aðstoð að halda,“ segir í tilkynningu frá Landsbjörg.