Hörður leikur sinn fjórða leik í 2. deild Íslandsmótsins á föstudag kl 19:00 í íþróttahúsinu á Torfnesi.
Hörður tekur á móti Selfossi U. Ísfirsku strákarnir hafa æft vel síðustu vikur og verið að slípa spilið. Fyrrverandi liðsmaður Selfoss og núverandi Harðarmaður telur að okkar menn ættu að velgja sonum Suðurlands undir uggum, sérstaklega ef rútuferð Selfyssinga verði erfið vegna veðurs.
Helgina 12. til 13. október spilaði Hörður við ÍBV U í Reykjavík og tapaði þar tveimur leikjum. Afar góðir, en erfiðir leikir gegn ungu og spræku liði ÍBV. Leikirnir fóru 24-36 og 24-40 fyrir ÍBV. Spilið er betra með hverjum leiknum og okkar menn eru að taka stórstígum framförum. Gautur Óli Gíslason og Sudario Carneiro skoruðu sín fyrstu meistaraflokksmörk í leikjunum, jafnframt skoraði Arnar Rafnsson góð mörk og Stefán Freyr Jónsson átti góðan leik í markinu. Allir eru þessir drengir enn á grunnskólaaldri.
Það verður frítt inn á leikinn á föstudag og eru allir hvattir til að koma og styðja við við strákana í baráttunni í 2. deildinni