Enn er í gildi er samþykkt bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 18. apríl 2016 þar sem lagst er gegn því að fiskeldi verði í Jökulfjörðum. Segir í samþykktinni að bæjarráðið telji algerlega óhugsandi að úthluta leyfum án þess að ítarleg vinna með íbúum, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum hafi farið fram. Skorað er á sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra að sjá til þess að óheimilt verði að stunda fiskeldi í Jökulfjörðum a.m.k. þar til nýtingaráætlun fyrir Ísafjarðardjúp og Jökulfirði liggur fyrir.
Hins vegar fagnar bæjarráðið áformum um uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi og styður þau.
Álytunin bæjarráðs var gerð vegna umsóknar um 10.000 tonna eldisleyfi í sjó á þremur stöðum í Jökulfjörðum.
Þeir sem stóðu að ályktuninni voru Arna Lára Jónsdóttir formaður, Kristján Andri Guðjónsson aðalmaður, Daníel Jakobsson aðalmaður, Marzellíus Sveinbjörnsson áheyrnarfulltrúi og Gísli Halldór Halldórsson Bæjarstjóri.
Ályktun bæjarráðs var lögð fram í bæjarstjórn en aðeins til kynningar og er hún því ekki ályktun eða samþykkt bæjarstjórnar.
Ályktunin í heild:
„Bæjarráð Ísafjarðarbæjar skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra að sjá til þess að óheimilt verði að stunda fiskeldi í Jökulfjörðum a.m.k. þar til nýtingaráætlun fyrir Ísafjarðardjúp og Jökulfirði liggur fyrir.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggst gegn því að fiskeldi verði í Jökulfjörðum og telur algerlega óhugsandi að úthluta leyfum án þess að ítarleg vinna með íbúum, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum hafi farið fram.
Jökulfirðirnir eru friðland okkar og djásn. Framsýni þeirra var mikil sem gerðu Hornstrandir að friðlandi árið 1975. Hornstrandir og Jökulfirðir eru í dag einstakt svæði fyrir þær sakir og er Bæjarráði Ísafjarðarbæjar umhugað um að svo verði áfram.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar áformum um uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi og styður þau. Þar er mikilvæg uppbygging í gangi sem fjölgar atvinnutækifærum á svæðinu. Nú er svo komið að fiskeldi er í flestum fjörðum Ísafjarðardjúps og eykur það verndunargildi Jökulfjarða enn frekar. Því er enn ríkari ástæða til að staldra við.
Jafnframt ítreka bæjaryfirvöld mikilvægi þess að settur verið fram lagarammi sem styðji við heildarsýn um skipulag á nýtingu strandsvæða og að sveitarfélög fái skipulagsvald að einni sjómílu utan grunnlínu landhelginnar þannig að allir firðir og flóar falli þar undir.“