Lög um umhverfismat: Ísland eina landið með opna kæruheimild

„Ekki verður betur séð en að Ísland sé eina landið í samanburðarhópnum sem hefur opna heimild til að kæra matsskylduákvörðun efnislega.“ Þetta segir í skýrslu þar sem borin var saman löggjöf nágrannaríkja Íslands um mat á umhverfisáhrifum.

Skýrslan var unnin fyrir Umhverfisráðuneytið og höfundur er Aagot Vigdís Óskarsdóttir.  Henni var falið að  að taka til skoðunar löggjöf Norðurlandanna og Skotlands sem fjallar um ferli mats á umhverfisáhrifum og ferli leyfisveitinga, en löggjöf þeirra um mat á umhverfisáhrifum byggir á tilskipunum Evrópusambandsins eins og löggjöf Íslands. Skýrslan er til undirbúnings heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum.

Kæruheimildir einkum bundnar við leyfi og sérstaða íslands

Um kæruheimildir segir í skýrslunni að það eru fyrst og fremst ákvarðanir um leyfi sem heimilt er að kæra hjá samanburðarþjóðunum og almennt hægt að koma að málsástæðum sem varða umhverfismatið í þeirri kærumálsmeðferð. Kæruheimildir eru oftast í þeim lögum sem ákvörðun um leyfi byggist á eða í stjórnsýslulögum.  Þá segir að ekki verður betur séð en að Ísland sé eina landið í samanburðarhópnum sem hefur opna heimild til að kæra matsskylduákvörðun efnislega og  einnig eina landið þar sem tekin er „ákvörðun“ um endurskoðun matsskýrslu og er hún kæranleg. Íslensku lögin eru jafnframt þau einu sem kveða á um kæruheimild vegna ákvörðunar um að fleiri framkvæmdir skuli meta sameiginlega.

„Samkvæmt dönsku lögunum er einungis hægt að kæra ákvörðun um matsskyldu að því er varðar lögmæti (d. retlige spørgsmål), þ.e. hvort ákvörðunin er tekin í samræmi við gildandi reglur, en ekki er hægt að fara fram á endurskoðun á matskenndum þáttum, þ.e. mati stjórnvaldsins á sjónarmiðum sem ákvörðun byggist á og ákvörðun um vægi þeirra.143 Í Finnlandi getur framkvæmdaraðili kært matsskylduákvörðun en ekki aðrir. Þar er þó hægt að óska eftir endurskoðun ákvörðunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld samhliða kæru ákvörðunar um leyfi. Í 6. kafla sænsku umhverfislaganna eru bein ákvæði um að ákvörðun um matsskyldu sé ekki kæranleg“.

Flókið ferli á Íslandi

Um sjálft umhverfismatiðs egir skýrsluhöfundur að í samanburði við löggjöf hinna samanburðarríkjanna sé ferli mats á umhverfisáhrifum í íslensku lögunum óþarflega flókið. Nefnt er sem dæmi að í  samráði um matsáætlun er kveðið  á um tvöfalt samráð, þ.e. annars vegar samráð sem framkvæmdaraðila er ætlað að standa fyrir og hins vegar samráð á vegum Skipulagsstofnunar. Íslenska löggjöfin hefur einnig sérstöðu að því leyti að framkvæmdaraðili leggur tvisvar fram matsskýrslu, frummatsskýrslu og endanlega matsskýrslu. Kynning frummatsskýrslu er tvöföld, annars vegar kynnir Skipulagsstofnun frummatsskýrsluna og hins vegar skal framkvæmdaraðili kynna framkvæmd og frummatsskýrslu í samráði við Skipulagsstofnun.

Segir að ástæða „væri til að móta betur verkaskiptingu milli framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnunar að þessu leyti og einfalda ferlið.“

Staðbundin stjórnvöld fara með málsmeðferð 

Í kaflanum um stjórnvald sem fari með málsmeðferð segir:

Í öllum samanburðarríkjunum nema Íslandi gegna staðbundin stjórnvöld stærstu hlutverki í stjórnsýslu mats á umhverfisáhrifum. Þessi staðbundnu stjórnvöld tilheyra ýmist sveitarstjórnarstiginu (Danmörk, Noregur, Skotland) eða eru hluti af stjórnsýslu ríkisins (Finnland og Svíþjóð). Þegar um er að ræða stærri framkvæmdir eða þær sem kunna að hafa umhverfisáhrif yfir landamæri fara miðlæg stjórnvöld alla jafna með málsmeðferð. Á Íslandi ber ríkisstofnunin Skipulagsstofnun meginábyrgð á stjórnsýslu mats á umhverfisáhrifum, enda þótt sveitarstjórnir gegni þar einnig mikilvægu hlutverki.

 

DEILA