Eldhúsglugginn – óður til hversdagsleikans

Gestur í Vísindaporti vikunnar föstudaginn 11. október er Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur. Í erindi sínu mun Sæbjörg velta hversdagsleikanum fyrir sér með útgangspunkti í eldhúsglugganum. Mörg okkar eyða umtalsverðum tíma fyrir framan eldhúsgluggann, ekki endilega til að njósna um nágranna eða horfa á umhverfið heldur kannski frekar af því að þar fer mikill hluti vinnu okkar fram, við matseld og frágang. Það sem ratar í gluggakistuna og sem umgjörð utan um útsýnið er oftar en ekki persónulegt og stundum geyma hlutirnir sögu.

Sagt verður frá ljósmyndasýningu á samfélagsmiðlinum Facebook sem haldin var í maí á þessu ári. Sýningin fjallaði um eldhúsglugga og fagurfræði hversdagsleikans. Um 30 einstaklingar sýndu myndir af eldhúsgluggum og ýmsum munum sem stillt er upp í og við gluggakistuna. Fátt er hversdagslegra en eldhúsglugginn en þeir sem vinna fyrir framan hann gefa honum og hlutunum í kring oft dýpri merkingu en sjáanleg er fyrir utanaðkomandi. Slík er bæði fegurðin og galdurinn við hversdagsleikann.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

DEILA