Ísafjörður: fjölnota knattspyrnuhús verði klárað um áramót 2020/2021.

Ein tillaga að knattspyrnuhúsinu.

Meirihluti nefndar um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss leggur til að farið verði í útboð á fjölnota knattspyrnuhúsi á Ísafirði. Miðað við núverandi tímasetningu og að útboð fari af stað sem fyrst telur meirihluti nefndarinnar líklegast að hafist verði handa við byggingu hússins sumarið eða haustið 2020 og það klárist um áramót 2020/2021.

Skýrlsa nefndarinnar hefur nú verið birt og kemur þetta fram í fréttatilkynningu frá Ísafjarðarbæ.

50 x 70 m hús á Torfnesi

Meirihluti nefndarinnar telur íþróttasvæðið á Torfnesi henta best fyrir fjölnota knattspyrnuhús, ekki síst vegna tengingar við önnur íþróttamannvirki sem eru á svæðinu fyrir en einnig vegna nálægðar við leikskóla, Hlíf, menntaskóla og grunnskóla.

Óskað verði eftir 50×70 metra einangruðu og upphituðu húsi. Samkvæmt tillögu verður boðið út á evrópska efnahagssvæðinu með skilyrðum um hámarksverð að upphæð 380.000.000 kr. og að húsinu verði skilað fullbúnu. Lagt er til að í útboðinu verði ákveðin skilyrði um útbúnað, svo sem geymslu, lýsingu, gervigras, hlaupabraut og fleira, en einnig að hægt verði að bjóða í valkvæða eiginleika, svo sem hljóðkerfi, áhorfendabekki og klifurvegg.

Kristján Þór Kristjánsson, formaður nefndarinnar, fagnar að verkefninu sé lokið og hægt verði að fara í útboð á húsinu. Vinnan hafi verið viðamikil og kostir skoðaðir fram og til baka. „Verkefnið tók nýja og betri stefnu þegar Ríkiskaup komu að því en reynsla þeirra kom að góðum notum við vinnuna. Það er trú okkar í meirihluta nefndarinnar að mjög skynsamleg leið sé valin sem tryggi að hægt sé að byggja hús sem er eins og best verður á kosið en er á sama tíma vel innan marka fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar.“

Auk Kristjáns skipa nefndina þau Sif Huld Albertsdóttir og Sigurður Jón Hreinsson.

DEILA