2,5 milljarðar króna úr Jöfnunarsjóði til Vestfjarða 2018

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiddi á síðasta ári til sveitarfélaga á Vestfjörðum 2,5 milljarða króna skv. ársskýrslu sjóðsins. Alls greiddi sjóðurinn 47,7 milljarða króna til sveitarfélaga landsins. Lætur nærri að framlag Jöfnunarsjóðs sé um 1/3 af skatttekjum sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins. Með öðrum orðum eru tekjur sveitarfélaganna frá Jöfnunarsjóði 1/4 af samanlögðum skatttekjum og framlagi Jöfnunarsjóðsins.

Hlutverk Jöfnunarsjóðsins er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og tekjur sveitarfélaganna. Þrír langstærstu liðirnir eru almenn útgjaldajöfnun, jöfnun vegna reksturs grunnskóla og jöfnun vegna fasteignaskatta. Aðrir liðir eru jöfnun vegna málefna fatlaðra, nýbúafræðslu og til tónlistarnáms. Fáeinir aðrir liðir eru til jöfnunar en þær fjárhæðir eru lágar af heildinni.

Vestfirsk sveitarfélög fengu 2,5 milljarða króna úr Jöfnunarsjóðnum á síðasta ári.  Almenn útgjaldajöfnun var langstærsti liðurinn og nemur um helmingi heildarfjárhæðarinnar 1.205 milljónir króna. Til reksturs grunnskóla var veitt 617 milljónum króna og 521 milljón króna til jöfnunar vegna fasteignaskatta.

Ísafjarðarbæ fékk hæstu fjárhæðina tæpar 920 milljónir króna. Vesturbyggð fékk úthlutað 424 milljónum króna og Bolungavíkurkaupstaður 303 milljónum króna. Árneshreppur fékk langminnst eða aðeins tæpar 13 milljónir króna.

Framlög úr Jöfnunarsjóð sveitarfélaga 2018
til vestfirskra sveitarfélaga
m. kr. útgjalda- rekstur jöfnun Alls
jöfnun grunnskóla fasteignask
Ísafjarðarbær 424 177,2 268,1 919,8
Bolungavíkurkaupst. 110 102,7 54,4 302,5
Reykhólahreppur 104 53,1 21,6 192,9
Tálknafjarðarhr. 138,8 41,8 23,2 205,8
Vesturbyggð 188,3 150,4 78,8 424,4
Súðavíkurhr. 81,5 38 23,3 148,6
Árneshreppur 1 1,1 7,8 12,6
Kaldrananeshreppur 24,4 -7,8 10,2 26,8
Strandabyggð 133 60,4 33,8 235,3
Samtals 1205 616,9 521,2 2468,7
DEILA