Jöfnunarsjóður sveitarfélaga útdeilir 47,7 milljörðum króna

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flytur ávarp á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Á síðasta ári voru heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 47,7 milljarðar króna. Þetta kemur frá í ársskýrslu sjóðsins sem lögð var fram á ársfundi sjóðsins fyrir síðustu helgi.

Til sveitarfélaga á Vestfjörðum runnu alls um 2,4 milljarðar króna.

Framlög Jöfnunarsjóðs skiptast í bundin framlög, sérstök framlög, jöfnunarframlög, jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla og jöfnunarframlög vegna málefna fatlaðra. Framlög vegna málefna fatlaðra vógu þyngst og námu rúmlega 17,6 milljörðum á árinu. Næst á eftir komu jöfnunarframlög vegna grunnskóla sem námu rúmlega 11,7 milljörðum. Um 11,3 milljörðum króna var varið til jöfnunar milli sveitarfélaganna. Þar af var ríflega 10 milljörðum króna varið til þess að jafna útgjöld sveitarfélaganna og 1,250 milljónum króna til jöfnunar tekna þeirra.

 

„Jöfnunarsjóður gegnir mjög mikilvægu hlutverki við að jafna aðstöðumun sveitarfélaga þannig að öll sveitarfélög í landinu hafi möguleika á að sinna skyldum sínum hvað varðar þjónustu við íbúana,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í ræðu sinni á ársfundinum.

Greiðslur sjóðsins vega misþungt í tekjum þeirra sökum ólíkra aðstæðna sveitarfélaga í dreifbýlu landi. Hjá flestum sveitarfélögum vega þessar greiðslur á bilinu 20-40% af tekjum þeirra, en jafnframt höfum við dæmi um að framlög úr sjóðnum séu um eða yfir 50% af tekjum. „Þetta segir okkur að líklega eru sveitarfélögin enn of fámenn og of mörg og þar með ekki sjálfbærar einingar til að geta sinnt lögbundnum verkefnum,“ sagði Sigurður Ingi.

DEILA