Sparnaður af sameiningu 3,5 – 5 milljarðar króna

Sveitarstjórnarráðuneytið hefur látið gera skýrslu um mögulegan sparnað af sameiningu sveitarfélaga þar sem lágmarksíbúafjöldi yrði 1000 manns. Það voru Vífill Karlsson og Sigurður Guðmundsson sem unnu skýrsluna. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra greindi frá þessu á ráðstefnunni.

Mögulegur ávinningur sem hingað til hefur ekki skilað sér

Höfundar gera þann fyrirvara að :

„í mörgum rannsóknum sem gerðar hafa verið á hagræði eða bættri þjónustu sveitarfélaga í kjölfar sameininga hefur ekki verið hægt að sýna fram á að þess hafi gætt í kjölfar sameininga á Íslandi (Eythórsson & Karlsson, 2018; Karlsson, 2015; Karlsson & Eythórsson, 2019). Þar geta verið margar skýringar að baki sem raktar hafa verið í nokkrum rannsóknum. Þess vegna er lögð á það áhersla hér að niðurstöðurnar hér eru eingöngu mögulegur ávinningur í kjölfar sameininga sveitarfélaga þar sem 1.000 íbúa lágmark hefur verið sett. Reynslan á síðan alveg eftir að leiða í ljós hvort eitthvað af þeim ávinningi skili sér.“

1,5 milljarðar króna vegna yfirstjórnar

Við útreikningana er fyrst lagt mat á ávinning vegna minni sameiginlegs kostnaðar. Þar er niðurstaðan sú að ef sveitarfélögum fækkar um 40 og 70% af föstum kostnaði fámenna sveitarfélagsins , sem er áætlaður 8,3 milljónir króna,  sparist við sameininguna og jaðarkostnaður pr íbúa fámenns sveitarfélaga sé 123.865 kr og hann verði sá sami og jaðarkostnaður pr íbúa í fjölmemari sveitarfélögum 48.853 kr verður lækkunin á sameiginlegum kostnaðu um 1,5 milljarðar króna.

Þá er metið hvað mögulegt væri hægt að spara í rekstri einstakra annarra málaflokka og fæst þar niðurstaða um 2 milljarða króna sparnað.

Meiri sparnaður m.v. aðferð 2

Notuð var einnig önnur leið svokölluð aðferð 2 sem er mat á hagræðingarmöguleikum byggt á samanburði líkra sveitarfélaga.  Gert var mat á mögulegum breytingum á rekstrarkostnaði málaflokka á hvern íbúa byggt á ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2017. Reynt var að laga matsaðferðina í hverju tilviki að aðstæðum þannig að gert var ráð fyrir því að sveitarfélög mundu sameinast á samfelldum þjónustusvæðum. Þar sem fleiri þéttbýlisstaðir sameinast (og hugsanlega einnig dreifbýli) er miðað við kostnað í rekstri málaflokka sveitarfélaga sem nú þegar eru álíka fjölmenn og hið sameinaða sveitarfélag.

Þessi aðferð skilar um 5 milljarða króna sparnaði að meðtaldri stjórnsýslunni, sem er nú metin upp á 2,8 milljarða króna sparnað.

Svo virðist að báðar aðferðirnar skili mati upp á tveggja milljarða króna sparnað fyrir utan stjórnsýsluna.

 

DEILA